Þetta er svona dálítið eins og tilboðin á svörtum föstudegi. Sum þeirra reynast ekki jafn súper dúper og gefið er í skyn. Og hjá Icelandair eru menn sekir um þetta líka.

Skoðum þetta hér sem fannst á vef Icelandair klukkan 17:25 þennan daginn:

Hreint ekkert slæmt við þetta. Tíu til tólf þúsund krónur hvora leið fyrir sig til Berlínar, London eða Kaupmannahafnar. Hér þó auðvitað um sardínupakkann að ræða; þrengstu sætin og ekkert innifalið.

Klikki fólk á þessa borða Icelandair flyst fólk umsvifalaust beint á bókunarvef flugfélagsins þar sem tækifæri á að gefast til að bóka á þessum príma prísum. En þar liggja hundar grafnir. Lægstu auglýstu verð finnast ekki alltaf!!!

Hvað er raunverulega lægsta verð á flugi til og frá Berlín? Það reynist vera ÁTTA ÞÚSUND KRÓNUM dýrara en gefið er í skyn.

Ókei, kannski einhver minniháttar mistök hjá flugfélaginu. Skoðum hvort lægsta auglýsta verð fram og aftur til Köben stenst ekki. Viti menn! Stenst eins og stafur á bók.

Við látum þá reyna á tilboðið til London og heim aftur. Og hér reynist lægsta verð raunverulega 22.625 krónur eins og auglýst er.

Ljómandi hugmynd að vera vel á varðbergi gagnvart öllum tilboðum alls staðar. Og góðu heilli eru íslensk lög þannig úr garði gerð að ef þig raunverulega langar til Berlínar fyrir 22.835 krónur þá er það vel hægt ef þú stendur fast á þínu. Hafa fyrst samband við flugfélagið og benda þeim á mismuninn á auglýstu lægsta verði og raunverði og óska eftir að þeir standi við loforð sín. Ef það gengur ekki þarf að skjóta skeyti á Samgöngustofu og Neytendastofu en slíkt dugar yfirleitt til að flugfélagið standi við orð sín. En það kann að taka tíma.