Öll eigum við ferðasögur sem bragð er að og sögurnar jafn misjafnar og fólkið er margt. Fararheill tók hús á nokkrum skemmtilegum einstaklingum með ferðabakteríuna í blóðinu og fékk þá til að deila örlítið.

Stefnir Gunnarsson er 25 ára tónlistarmaður og starfsmaður hjá Íþrótta og tómstundarráði. Hann er sérlegur áhugamaður um Japan og japanska menningu og hefur lagt stund á japönskunám í frístundum síðastliðin tvö ár.

Fararheill: Dásamlegasta land sem þú hefur heimsótt og af hverju?

Stefnir: Skemmtilegasta land sem ég hef heimsótt eru Bandaríkin. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á menningunni þar og það var frábært að sjá hvernig þetta er allt saman með eigin augum.

Fararheill: Besta verslunarborgin að þínu mati og af hverju?

Stefnir: Ég eyddi alla vega MIKLU meiri peningum en ég ætlaði mér í borginni Austin í Texas.

Fararheill: Hver er þín versta lífsreynsla erlendis?

Stefnir: Aldrei lent í neinu þannig… nema kannski mikilli þynnku.

Fararheill: Hvaða erlendu staðir hafa komið þér mest á óvart?

Stefnir: Kaupmannahöfn kom mér verulega á óvart. Ég var alveg búinn að ákveða að Danmörk væri hræðilega óspennandi staður áður en ég fór þangað en nú get ég ekki beðið eftir því að fara aftur.

Fararheill: Eitt það mikilvægasta að hafa í huga á ferðalögum er…?

Stefnir: Ekki þykjast vera með sprengju í flugvélinni. Það er bara miklu meira vesen en fyndið.