Óhætt er að segja að við höfum vart undan að svara skeytum lesenda sem eru forvitnir um hvernig nákvæmlega má njóta ferðalaga erlendis án þess að reiða sig á dýrar ferðir innlendra ferðaskrifstofa.

Ekkert amalegt við þetta útsýni.
Ekkert amalegt við þetta útsýni.

Eins og allt gott í lífinu verður að hafa aðeins fyrir bestu hlutunum og það á líka við langi fólk að spóka sig erlendis án þess að fara á fund bankastjóra. Að sama skapi verður fólk að gera sér grein fyrir að það eru hættur því samfara að skipuleggja eigin ferðir en sú hætta er hverfandi fylgi fólk heilbrigðri skynsemi.

Eitt okkar var fyrr í vikunni að kaupa ferð til Portúgal og sú lendir með maka sínum í Lissabon og gistir þar nokkrar nætur í júní á góðu hóteli í borginni. Heildarkostnaður fyrir parið í viku alls 96 þúsund krónur eða 48 þúsund krónur á mann.

Þetta getur þú líka og hér að neðan tökum við skref-fyrir-skref dæmi um nákvæmlega hvernig.

A) Í fyrsta lagi segir sig sjálft að sumarleyfi yfir háannatíma, júní til september, kostar manninn 20 til 40% meira en á öðrum tímum. Þess vegna byrjum við á að ákveða að ferðast utan þess tíma. Við ætlum að ferðast í maí og vera í tvær vikur. Hafið í huga að við ákveðum dagsetningu ferðar gróflega áður en við ákveðum hvert við ætlum að fara því í þessu tilfelli ætlum við bara að elta verð. Við byrjum á að leita á vefum flugfélaganna hver býður lægsta verð á flugi til London, Oslóar, Köben, Parísar eða Berlínar um miðjan maí. Bretland er yfirleitt sniðugasti staðurinn því þar er samkeppni milli ferðaskrifstofa mikil og grimm og aukinheldur stysta flugið bæði frá Íslandi og eins áfram suður til Evrópu. Hagstæðustu fargjöld sem við finnum nú er þetta hér:

eas

Hér er flug til Bristol og heim aftur fyrir 21 þúsund krónur á mann með öllum gjöldum og einni ferðatösku. Það er aðeins galli að um Bristol sé að ræða því úrval ferða þaðan er mun minna en annars staðar en við látum á það reyna. Hér er par komið með fyrsta legginn út fyrir 42 þúsund krónur sem er mjög gott verð með litlum fyrirvara.

B) Nú eru ýmsir kostir í stöðunni. Við gætum leitað að breskum ferðaskrifstofum sem bjóða ferðir frá Bristol. Þær eru allnokkrar og samkeppnin er hörð svo nánast hvarvetna má finna ágæt tilboð. Við ætlum hins vegar að gera þetta sjálf svo við skoðum hvert er komist frá Bristol innan þessa tímaramma. Okkur langar í sól svo við kíkjum á ferðir til Costa del Sol og Algarve. Fjölmargir staðir í boði og við finnum fljótt þetta hér til Faro í Portúgal:

eas5

Flug til Faro og aftur til Bristol kostar manninn með gjöldum og einni tösku 28 þúsund krónur. Brottfarartímar passa nokkuð vel við flugið frá Keflavík en fjögurra stunda bið er á flugvellinum á bakaleiðinni. En parið er með þessu móti komið til Faro í Portúgal fyrir alls 98 þúsund krónur eða 49 þúsund krónur á mann.

C) Nú aftur eru margir kostir í stöðunni. Vel er hægt að leigja bílaleigubíl, fara á flakk og tékka sig inn á hótel á leiðinni. Ólíkt því sem margir halda er það ekkert vandamál og í maí eru engar líkur að hótel hér séu fullbókuð. En aftur er ströndin að heilla þetta ákveðna par svo við viljum eitt og sama hótelið. Við byrjum á að leita á hótelvef Fararheill og leitum alls staðar á Algarve. Þar eru ekki nema 1200 hótel í boði og hægt er að leita eftir ýmsum leiðum. Allt innifalið, fjarlægð frá strönd, tegund gistingar, verð og stjörnugjöf. Þetta á að vera alvöru svo við leitum aðeins að fjögurra og fimm stjörnu hótelum og sérstaklega að þeim er bjóða allt innifalið. Á augnabliki finnum við þetta hér fimm stjörnu hótel með öllu inniföldu við Albufeira:

albu1

Voilà! Fínasta hótel með öllu á besta stað fyrir 191 þúsund krónur miðað við miðgengi dagsins. Kjósi fólk aðeins herbergi hér og ekkert annað dettur verðið niður í 101 þúsund lægst. En við erum að lyfta okkur upp og viljum allt klabbið. Parið komið með tveggja vikna sólarferð á besta stað á fínum tíma á fimm stjörnu hóteli með öllu inniföldu fyrir 289 þúsund krónur samtals. Það gerir 144 þúsund krónur á mann.

Ofangreint er aðeins eitt dæmi um hvernig má njóta lífsins á erlendri sólarströnd án þess að greiða offjár fyrir. Sleppi fólk „allt innifalið“ pakkanum kostar þessi ferð í heildina 199 þúsund krónur eða rúmar 99 þúsund krónur á mann. Til samanburðar er til dæmis Úrval Útsýn að bjóða tveggja vikna dvöl á fjögurra stjörnu „allt innifalið“ hóteli í Almeria frá 224 þúsund krónum á mann. Verðmunurinn í heildina miðað við það er því 160 þúsund krónur fyrir parið. Það munar um minna.

Hafið endilega samband ef spurningar eru einhverjar og við reynum að aðstoða eftir getu.