Heimur versnandi fer og ekki hvað síst á Mallorca. Borgaryfirvöld í höfuðborginni Palma hafa nú lagt blátt bann við fáklæddu fólki á götum úti og hver sá sem finnst á vappinu í strandklæðum einum fata má eiga von á 95 þúsund króna sekt.

Þessi ágæta kona þarf að hylja sig vel og vandlega áður en haldið er út á götu í Palma. Mynd Antonella Moltini
Þessi ágæta kona þarf að hylja sig vel og vandlega áður en haldið er út á götu í Palma. Mynd Antonella Moltini

Fyrirvarinn á þessu banni borgaryfirvalda var alls enginn heldur þetta tilkynnt sísona og tók gildi strax.

Fyrir ferðamenn sem sækja jú Mallorca heim vegna hitans og ljúfra stranda gæti ein slík sekt aldeilis sett strik í ferðareikninginn því margir eru jú ekki að klæða sig frá toppi til táar til að kíkja í mat, rölta um markaði eða annað skemmtilegt sem hægt er að dunda í Palma.

Hugmyndin kemur þó frá verslunareigendum sem fengið hafa sig fullsadda af hálfnöktu fólki í verslunum sínum og á veitingastöðum. Nú skal það fólk annaðhvort vera á ströndinni eða hóteli sínu ellegar klæða sig almennilega.

Palma er ekki fyrsti staðurinn sem tekur upp sekt fyrir nekt. Það hafa borgaryfirvöld í Barcelona gert um þriggja ára skeið og það haft töluverð áhrif. Öllu færri dúlla sér hálfnaktir í Römblunni nú en áður en bannið þar tók gildi. Munurinn þó sá að sektirnar í Barcelona eru frá fimm til tuttugu þúsund krónur en ekki nálægt hundrað þúsund kallinum.