Ég brosti aðeins þegar ég heyrði heiðarlegt svarið en hugsaði jafnframt að greyið konan yrði troðin undir þegar og ef eitthvað alvarleg kæmi fyrir.

Svo þröngt er á almenningsfarrými margra flugfélaga að menn komast vart úr sætum. Hvað þá út í neyð. Mynd Phillip Kalantzis
Svo þröngt er á almenningsfarrými margra flugfélaga að menn komast vart úr sætum. Hvað þá út í neyð. Mynd Phillip Kalantzis

Kannski vita það ekki allir en samkvæmt lögum og reglum flugfélaga heimsins á enginn að fá sæti við neyðarútgang nema vera í líkamlega góðu ásigkomulagi og viljugur og reiðubúinn að aðstoða aðra farþega ef neyð verður til að fólk þurfi að yfirgefa vélina í hvínandi hvelli.

Brosið ofangreinda kom til fyrir tæpu ári þegar flugþjónn hjá flugfélagi hérlendis forvitnaðist hjá þybbinni eldri konu sem sat við neyðarútgang hvort hún væri reiðubúin til þess. Jánkaði hún því heiðarlega en hugsaði líklega ekkert út í afleiðingarnar ef illa færi.

Ritstjórn datt þetta dæmi í hug eftir að í ljós kom við strand skemmtiferðaskipsins Costa Concordia að farþegar um borð rifust eins og hundur og köttur um björgunarvesti og pláss í björgunarbátum. Sama var sagt uppi á teningnum þegar ferju hvolfdi í Suður Kóreu með hræðilegum afleiðingum á síðasta ári.

Það virðist sem sagt ekkert hafa breyst mikið á þeim rúmlega hundrað árum sem liðin eru síðan Titanic sökk hvað siglingar varðar. Farþegar missa sig í skelfingu og starfsmenn of fáir til að geta aðstoðað eins og þörf er á.

Í flugiðnaðinum er staðan ekki mikið betri því mörg flugfélög, sérstaklega lágfargjaldaflugfélög, selja sæti við neyðarútganga véla nú á dögum sérstaklega dýrt þar sem fótarými í þeim sætum er meira en í öðrum sætum. Þá eru flugmiðar margra flugfélaga einkum seldir á netinu svo engin leið fyrir flugfélögin að meta hvort manneskjan sem kaupir sæti við neyðarútgang er líkamlega og andlega fær um að hugsa skýrt og hjálpa öllum öðrum farþegum áður en hún sjálf kemst út í neyð.

Enginn úr ritstjórn Fararheill hefur nokkurn tíma orðið vitni að því að flugþjónar vísi farþega við neyðarútgang úr sæti sínu vegna aldurs, lítilla líkamsburða eða offitu. En má ekki veðja á að komi upp eldur í  farþegarými eða nauðlent er á sjó er ábyggilega ekkert gamanmál að sitja við neyðarútgang og ekki síður neikvætt fyrir alla hina. Allra síst ef þar situr akfeitur plebbi á sjötugsaldri sem búinn er með sex bjóra.

Svo er hitt annað mál og okkur vitandi lítið rætt í flugheimum sem er sú staðreynd að þeim fer fjölgandi sem eru það þungir og miklir að þrautin þyngri gæti verið að koma þeim út úr flugvél í neyð.