Eflaust má telja þá Íslendinga á hendi einhents manns sem sækja heim strendur Belgíu til afslöppunar og yndisauka. Belgía einhvern veginn ekki að tikka í öll þau box. Eða hvað?

Hann kallast Kusttram sporvagninn sem gengur upp og niður alla strönd Belgíu.

Það má reyndar deila um hvort sé yndislegra að leggjast á strönd í Belgíu eða á Spáni svona yfir hásumarið. Hitinn getur jú farið fram úr hófi á sendnum ströndum Costa Brava eða Blanca og enginn á þá ósk heitasta að bráðna.

En hefur einhver velt fyrir sér hvers vegna það finnast fáir ef nokkrir Belgar að spássera um í Benidorm eða á Algarve að sumarlagi? Þeir eiga nefninlega afar fína sendna strandlengju sjálfir og hitastig þar yfir sumarið alveg nægilegt til að gefa Spánarferðum langt nef. Meðalhitastig í Belgíu í júlí nær alveg 20 gráðum eða bara æði fínn hiti fyrir kulsækna Frónbúa frá norðri.

Eitt það skemmtilegasta við að dvelja í einhverjum strandbæ Belgíu, og þeir eru flestir almennt ágætir, er sú staðreynd að sérstakir sporvagnar ganga eftir endilangri strönd landsins daginn út og inn. Þá meinum við bókstaflega að þeir ganga meðfram ströndinni og farþegar aldrei lengra en tuttugu skrefum frá sandinum.

Þessi leið er afar vinsæl enda gefur hún gestum tækifæri á ódýran hátt til að skoða alla strandbæi Belgíu án þess að blása út nös. Ekki skemmir heldur að hægt er að monta sig af því að hafa ferðast um í þeim sporvagni sem fer lengsta leið allra slíkra vagna í veröldinni. Strandleið vagnanna er alls 68 kílómetrar og mikið lengri er strandlengja Belgíu ekki. Nánar tiltekið fer hver vagn frá bænum De Panne og endar í hinum fræga Knokke-Heist.

Sérdeilis fín hugmynd ef einn góðan veðurdag Belgía verður fyrir valinu sem sólarstaður í viku eða tvær. Allt um leiðina hér.