Það fer mikið fyrir djammi, djúsi, skemmtigörðum og tilbúinni afþreyingu víðast hvar í Flórídafylki í Bandaríkjunum. Öllu minna fyrir því sem líklega er eitthvað það allra skemmtilegasta sem hægt er að gera í sólskinsríkinu: heimsókn í þjóðgarð.

Hluti Fanning Springs fylkisgarðsins í Flórída. Þar er stór náttúruleg buslulaug og vatnshitinn fer sjaldan niður fyrir 20 gráður. Sem er frábært þegar sólin yfir fylkinu verður helst til heit.

Flórídafylki eitt og sér er ekki ýkja stórt en mörgum bregður í brún að í fylkinu finnast hvorki fleiri né færri en 164 þjóðgarðar eða fylkisgarðar í þessu tilfelli. Því til viðbótar eru minnst sex stór landssvæði í einkaeigu sem opin eru almenningi gegn gjaldi.

Á þessum stöðum velflestum getur aðkomufólk fengið að gista í tjaldi, húsbíl eða hjólhýsi og í þeim mörgum er að finna náttúrlega afþreyingu á borð við heitar og kaldar lindir sem nýtast til sunds, siglinga eða í tilfellum til að vitna verulega merkilega náttúru og dýralíf fylkisins. Í mörgum þeirra má leigja gegn vægu gjaldi tjöld, báta eða köfunarbúnað fyrirvaralítið.

Í velflestum fylkisgörðum Flórída má leigja báta eða köfunarbúnað fyrir lítið. Mynd Florida State Parks

Hvað er meira heillandi við náttúrlega garða en Disneyworld eða Busch Gardens kann einhver að spyrja?

Jú, hér er dýralíf eins og eðlilegt er í náttúrunni og gnótt forvitnilegra dýra sem finna má víða. Alltaf er spennandi að sjá alligatora sem eru hinir bandarísku krókódílar. Slíkir finnst um allt fylkið nánast. Slöngur eru jú vaðandi um allt líka en fæstar hættulegar fólki. Forvitnileg dýr eins og þvottabjörn er algengur í skóglendi og hér fljúga um yfir 150 tegundir fugla svo fátt sé nefnt.

Mest spennandi er þó að komast í náttúrulaugar sem finnast í fjölda fylkisgarða Flórída. Í þeim flestum heimilt að synda, sigla og kafa og hér finnst einhverjir mögnuðustu neðansjávarhellar heims. Ekki er síður ljúft að útlendingar eru sjaldséðir gestir í þjóðgörðunum en þeir á hinn bóginn fjölsóttir af heimafólki sem hér kann að skemmta sér og öðrum.

Fyrir okkur Íslendinga sem mörg hver heimsækja Orlandó reglulega er einn slíkur garður nánast í bakgarði borgarinnar. Það er Wekiwa Springs State Park. Sá ekki lítið vinsæll en 250 þúsund manns eyða hér tíma árlega. Ótrúlega margt í boði eins og sjá má á vef þeirra og aðgangur aðeins tæpar þúsund krónur íslenskar fyrir bílinn hvort sem í honum er ein manneskja eða sex.

Aðeins öðruvísi upplifun en þetta hefðbundna í Flórída og engu síðra en hitt 🙂