Þjónustulund virðist vera deyjandi fyrirbrigði á klakanum. Þessu til sönnunar má sjá meðfylgjandi skjáskot af vef Gaman ferða þar sem þeir monta sig af því að nenna að vinna fjóra, fimm tíma á laugardegi til að aðstoða þig að finna réttu ferðina.

Þvílík fórn. Rándýr auglýsingaherferð og bara opið nokkra tíma á laugardagsmorgni. Skjáskot
Þvílík fórn. Rándýr auglýsingaherferð og bara opið nokkra tíma á laugardagsmorgni. Skjáskot

Það liggur við að Fararheill fari að opna ferðaskrifstofu. Þó ekki til annars en sýna þessum hefðbundnu hvað þjónusta snýst um.

Látum okkur nú sjá. Hvenær skyldi almenningur, eða hjón í þessu tilfelli, hafa lausan tíma til að henda sér inn á næstu ferðaskrifstofu og hafa tíma til að velja góða ferð og labba út glöð í geði og hamingjusöm?

Hmmm…

Laugardagsmorgnar? Varla. Íslendingar vinna mikið og þegar loks kemur frídagur fyrir flesta þá er enginn í stuði til að skaufast eldsnemma á ferðaskrifstofu niðri í bæ.

Mánudagsmorgnar? Varla. Við erum að vinna.

Þriðjudagsmorgnar? Ekki sjéns. Vinna.

Miðvikudagar? Smá möguleiki en verðum að skjótast úr vinnu og sjéffinn verður með vesen ef það uppgötvast.

Fimmtudagar? Jú, smá tími aflögu og þegar nær dregur helgi er fólk meira opið fyrir að skipuleggja eitthvað skemmtilegt.

Föstudagar? Jamm. Það virkar. Margir búnir snemma í vinnu en þá á eftir að sækja börnin í skólann, reyta arfann úr garðinum og kaupa áfengi fyrir fimmtugs afmælið daginn eftir. Í þessari röð.

Helgar? Hallelújah. Fólk útsofið og hvílt og nýbúið að dreyma um dvöl undir heitri Tenerife-sólinni. Það er svo mikill tími aflögu að meira að segja karlinn kemur með á ferðaskrifstofuna. Svo mikill tími að bæði fara hlægjandi út eftir að hafa pantað ferðina.

Gaman ferðir, að hluta í eigu Skúla Mogensen, eru að gera ýmislegt rétt. En hvers vegna að hafa búlluna lokaða dagana eftir að þið eyðið milljónum króna í auglýsingaherferð? Hafið opið alla helgina frá morgni til kvölds. Bjóðið snittur og gos og þægilega sófa. Það kallast þjónusta og síðast þegar við gáðum þá kann fólk vel að meta góða þjónustu.