Við lifum á áhugaverðum tímum svo ekki sé meira sagt. Tíma sem þjónustuaðili getur hreint og beint lögsótt þig og sektað fyrir miður góða umsögn.

Undantekningarlaust taka hótel og bílaleigur mun hærri heimild af kortinu þínu við bókun en fyrir það sem þú ert að bóka

Við höfum áður bent fólki á þá leiðu staðreynd að nú til dags heyrir til undantekninga að ferðaþjónustufyrirtæki á borð við gististaði og bílaleigur taki sér ekki stóra umframheimild á kortinu þínu þegar gisting eða bíll er bókaður. Herbergið kostar kannski aðeins 20 þúsund en hótelið leyfir sér óhikað og án þess að spyrja kóng, prest né viðskiptavininn sjálfan að festa sér helmingi hærri upphæð á kortinu við bókun. Hugmyndin að gulltryggja að þú hafir ekki logið um að nota míníbarinn við brottför eða til að bæta sauminn á sloppnum sem hótelið lét þér í té. Með öðrum orðum, þá treystir fyrirtækið þér ekki til að koma hreint fram ef eitthvað kemur upp á.

Það í sjálfu sér eðlilegt. Margir þarna úti eru skíthælar og skíthælur og hugsa ekki tvisvar um að svindla á hótelum eða bílaleigum. Tilkynna engin tjón eða notkun sem endar á að einhver annar þarf að borga fyrir með hærra verði síðar.

Gallinn hins vegar sá að enginn segir þér frá þessari aukaheimild eða hversu há upphæðin er. Hún getur vel hoppað langt yfir hundrað þúsund krónur aukalega ef um bílaleigubíl er að ræða eða langa hóteldvöl. Það munar sannarlega um það fyrir þá sem ekki hafa milljóna króna heimild á kortinu sínu og ekki síst sökum þess að heimildin dettur oft á tíðum ekki úr gildi fyrr en mánuði eftir að dvöl eða leigu lýkur.

Og nú færist í vöxt að hótel sérstaklega láti sér ekki nægja að negla heimild á kortinu þínu að þér forspurðum heldur líka rífi umsvifalaust af heimildinni ef þér skyldi nú detta í hug að kvarta yfir staðnum á stórum samfélagsmiðlum. Til dæmis með því að gefa staðnum lélega einkunn á Tripadvisor.

Bíræfin hótel- og bílaleigur eru sum hver farin að lauma því inn í smáa letrið í samningum, þú veist þessum sem enginn les, að ef fyrirtækið fái neikvæða opinbera umsögn eftir að leigu eða dvöl er lokið, geti fyrirtækið tekið sér sérstaka þóknun vegna þess!!!

Vandamálið hreint ekki lítið. Svo rammt hefur kveðið að þessu vestanhafs að fjölmörg ríki Bandaríkjanna hafa þurft að setja sérstök lög til að vernda fólk fyrir slíkum kröfum.

En merkilegt nokk eru Evrópubúar langt aftur á meri. Engin lög gilda um slíkar fjártökur í neinu Evrópuríki enn sem komið er og því hægðarleikur fyrir óprúttna eigendur eða stjórnendur að leika sér að vild með kortaheimild gesta sinna í allt að mánuð eftir að dvöl eða leigu lýkur. Þar með talið að innheimta seðla ef gestir gefa þjónustunni ekki toppeinkunn.

Besta ráðið til að sporna við slíkum viðbjóð er auðvitað að greiða gistingu með beinhörðum seðlum við komu en það kann að vera flókið í framkvæmd. Önnur leið að greiða strax við komu eða bókun með forgreiddu korti þar sem bakvið er aðeins sú upphæð sem gistingin eða bíllinn kostar. Þriðja leiðin sú að greiða sérstaklega fyrir tryggingu ef um bílaleigubíl er að ræða. Tryggingin á þá auðvitað að dekka allt vesen ef eitthvað verður og þarflaust að taka aukaheimild á kortinu þínu. Síðast en ekki síst, að eiga aðeins viðskipti við þá gististaði eða bílaleigur sem ekki helga sér feitan bita af kortaheimild þinni sjálfkrafa. Slík fyrirtæki finnast enn en til að fá á hreint að um slíkt fyrirtæki sé að ræða þarf að spyrja fyrirfram.

Vesen já, en þá gufa ekki allt í einu upp 50 þúsund krónur af kortinu þínu vikum eftir að heim er komið vegna þess að þér fannst gistingin eða þjónustan hjá bílaleigunni léleg og sagðir frá því á samfélagsmiðlum.