Spítalar og sjúkrahús eru yfirleitt ekki á áætlun neinna ferðamanna nema auðvitað ef slys eða óhapp ber að höndum. Einn spítali í Lissabon er undantekning á þessu.

Forvitnilegur lager á Hospital da Figueira. Mynd HDF
Forvitnilegur lager á Hospital da Figueira. Mynd HDF

Vart hefur farið fram hjá lesendum okkar að við erum heltekin af Portúgal í nánast einu og öllu. Stór hluti af því er vinalegt fólkið en ekki síður saga og menning. Það er hollt að minnast þess að eitt sinn í skamman tíma var þetta örlitla land mesta stórveldi heimsins. Ekki síður merkilegt til þess að hugsa að herskáir Spánverjar skuli aldrei nokkurn tíma hafa sölsað litla Portúgal undir sig. Nei, það er fleira undir yfirborðinu hjá fólki hér en víða annars staðar og það heillar forvitna.

Annar angi af áhuga okkar tengist því að þó Portúgal sé komið inn í nútímann eins og aðrar þjóðir þá henda þeir ekki endilega gömlu og góðu á haugana hugsunarlaust.

Aldeilis ágætt dæmi um þetta er að finna við Praça do Figueira torgið (sjá kort neðar). Þar stendur spítali einn sem afar lítið fer þó fyrir og auðvelt er að missa af. Hospital de Bunecas heitir spítalinn og allir sjúklingar hér eru brúður og dúkkur.

Út af fyrir sig er stórmerkilegt að í vinsælli verslunargötu í höfuðborg Portúgals skuli finnast brúðuspítali. Sem segir strax sitt um heimamenn og nýtni. Og nýtnin er greinilega ekki ný af nálinni því Hospital de Bunecas var settur á stofn á þessum sama stað árið 1830. Þessi spítali er að nálgast 200 ára aldurinn.

Þetta ekki ómissandi stopp í Lissabon en afar forvitnilegt að sjá lækna hér sauma saman og lagfæra brúður hér í þúsundatali. Fullar hillur af varahlutum og allt ævintýralega sérstakt. Starfsmenn hér ekki óvanir því að forvitnir reki inn nefið og hver veit nema kaffi sé á könnunni.