Skip to main content

M argir eiga sér draum um tréhús eða trékofa en þeir einstaklingar eiga það yfirleitt sameiginlegt að vera flestir á aldrinum fimm til tólf ára. Sé fólk orðið eldra en það og gangi enn um með slíkan draum í mallakút er þjóðráð að skrá sig inn á Tréhótelið.

Einn af sex trjákofum Treehotel sem hægt er að eyða nótt í og njóta flestra þæginda.

Einn af sex trjákofum Treehotel sem hægt er að eyða nótt í og njóta flestra þæginda.

Treehotel heitir sænskt fyrirtæki sem eingöngu býður upp á gistingu í trékofum í skógum í norðurhluta Svíþjóðar en þeir trékofar eiga ekkert skylt við þá hrákasmíð sem trékofar eru oftar en ekki. Þvert á móti er um stórkostleg híbýli að ræða og hönnun kofanna hefur vakið heimsathygli.

Kofarnir eru alls sex talsins og allir með sérstök þemu. Þannig er hægt að gista í fuglahreiðri, geimskipi eða sánakofa ef því er skipta. Þeir eru frá 15 til 30 fermetrar að stærð og með öllum helstu þægindum sem frekast er hægt að koma fyrir í einum trjákofa. Allt er þó eins vistvænt og hugsast getur og fyrirtækið fengið verðlaun fyrir.

Kofarnir staðsettir í um klukkustundar fjarlægð frá borginni Lulea í Harads sem finnst í Boden kommúnu í norðuhluta Svíþjóðar.