Auðvitað er það toppurinn fyrir smáfólkið að heimsækja Disneyworld. Hver yrði ekki uppnumin af því að hitta Mikka, Mínu, Andrés, Guffa eða Plútó og það í eigin persónu!!!

Mikki Mús alltaf skemmtilegur. Verst að hann fær greitt skít og kanil. Mynd RobertCiavarro

Walt Disney fyrirtækið, sem á og rekur Disneyworld á heimsvísu, mokar inn seðlum hraðar en hægt er að framleiða skóflur til mokstursins. Stjórnendur synda í seðlum og forstjórinn þarf ekkert að örvænta með sínar 500 milljónir króna í árslaun fyrir utan sporslur og hlutabréf hvers virði telur í milljörðum króna.

Þér kann að vera nokk sama um megatekjur forstjóra Walt Disney. En er þér líka slétt sama um að starfsfólk í skemmtigörðum Disney vestanhafs fær ekki einu sinni greidd lágmarkslaun?

Lágmarkslaun í Bandaríkjunum eru heilar 802 krónur á klukkustund þegar þetta er skrifað. Svona svipað og forseti Alþýðusambands Íslands fær á sekúndu eða um það bil.

Það er sáraeinfalt að reka fyrirtæki með húrrandi hagnaði þegar þú þarf aðeins að greiða 800 kallinn á tímann en stjórnendum Disneyworld fannst 800 kallinn á tímann helst til þungur launabaggi á fyrirtækinu. Það eru jú sextán þúsund manns að vinna fyrir Disney í skemmtigörðum þess vestanhafs.

Þeir ákváðu því að gera kröfu um að staffið borgaði hitt og þetta sem að öllu eðlilegu ætti að vera partur af programmet. Staffið í Disneyworld þarf persónulega að punga út fyrir búningum og líkt og með flugliða þá er ekki nóg að mæta í vinnuna til að taxtinn fari að tikka inn. Nei, ekki hjá Disney. Þar þarf staffið að mæta, klæða sig upp og koma sér fyrir á sínum tiltekna stað ÁÐUR en króna fer að tikka í laun.

Illu heilli fyrir Disney komust eftirlitsmenn frá Vinnumálastofnun Bandaríkjanna að prettum Disney og hefur fyrirtækið nú greitt hálfan milljarð króna sem fyrstu sekt vegna málsins.

Þér er kannski ennþá nokk sama um að eitthvað erlent lið fái greidd skítalaun fyrir að skemmta þér og þínum? Ef ekki, er óvitlaust að sneiða alfarið hjá fyrirtæki sem telur 800 krónur á tímann vera allt of hátt fyrir dúndurskemmtun daginn út og inn.