Góðar fréttir og slæmar fréttir. Þær slæmu að ef þú telur að breska heimsveldið sé hápunktur mannkyns áttu ekkert erindi til Egyptalands. Góðu fréttirnar að ef þú leggur við hlustir þegar „gáfaðri“ þjóðir heims tjá sig er þjóðráð að drífa sig til Egyptalands 🙂

Egeeba við Níl. Einn af þúsund stöðum í Egyptalandi sem fróðlegt er að stinga niður fæti eða tveimur.

Engu vitibornu fólk dylst að bresk stjórnvöld ríða við einteyming í gáfum og hafa gert linnulítið allar götur frá því frú Thatcher náði kjöri sem forsætisráðherra landsins. Áratugalangar árásir stjórnvalda á millistétt landsins og fátæka hafa þýtt að miðborgir allra borga landsins eru nú troðnar af heimilislausu fólki. Til vitnis um ruglið er óhætt að nefna að kaupmáttur þorra almennings var meiri árið 1984 en 2016 samkvæmt úttektum fræðinga. Bretar eru einnig kylfuberar Bandaríkjamanna og þegar Kaninn segir hoppa eru Bretar fyrstir til og hoppa hæst. Svo ekki sé minnst á Brexit…

Sem þýðir að Egyptaland er nú næsta laust við annars töluvert leiðinlega breska túrista. Bresk stjórnvöld hafa ennþá í gildi ferðaviðvaranir til Egyptalands vegna sprengju sem grandaði rússneskri þotu í Sharm-el-Sheikh haustið 2015.

Bretar eru líka ALEINIR í Evrópu með þá viðvörun. Allar aðrar þjóðir hafa fólk með vit í kolli í utanríkisráðuneytum sínum og engum þar dettur í hug að ein hryðjuverkaárás fyrir hartnær þremur árum síðan dugi til að meina almenningi til að heimsækja undur Egyptalands. Ef Bretarnir væru sjálfum sér samkvæmir hefðu þeir umsvifalaust sett feita aðvörun á ferðir til New York í kjölfar árásanna á Tvíburaturnanna. Það gerðu þeir ekki og kom það aldrei til umræðu. Bara bönn á afdala þjóðir sem ekki eru í bestu-vina-hópnum.

Bretalaust Egyptaland er þó sennilega ívíð skemmtilegra heimsóknar en ella og ekki skemmir að landinn vill mjög gjarnan fá þig í heimsókn. Eins og meðfylgjandi myndband ber með sér. Ekkert leiðinlegt heldur að gengi egypska pundsins hefur hrapað skarpt og allt þar nú 40 prósentum ódýrara en það var áður en aumingjarnir í ISIS grönduðu rússnesku farþegaþotunni síðla árs 2015.