Það finnst varla það krummaskuðs-flugfélag sem ekki er að troða aukagjöldum ofan á flugfargjöldin eins og rjóma á köku og glotta í leiðinni. Aukagjöld eru jú til fyrir nánast allt nema anda og pissa í klósett hjá flestum flugfélögum þessi dægrin.

Netaðgangur í flugi kostar yfirleitt allnokkra þúsundkalla. En ekki lengur hjá JetBlue
Netaðgangur í flugi kostar yfirleitt allnokkra þúsundkalla. En ekki lengur hjá JetBlue

Því yndislegra að fregna að hið ágæta flugfélag JetBlue í Bandaríkjunum ætlar að synda gegn straumnum. Að minnsta kosta varðandi netaðgang í flugi. Þar með verður JetBlue fyrsta bandaríska flugfélagið til að bjóða þá þjónustu en slíkt hefur lengi verið í boði hjá norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian hinu megin hafsins.

Nú þegar við flest kjósum að vera nettengd 24/7 skiptir þetta töluverðu máli. Netaðgangur í þriggja til fimm tíma flugi getur kostað fimm til tíu þúsund krónur miðað við sæmilega notkun og munar um minna fyrir marga.

Ágætt að hafa í huga að Icelandair, sem ekki býður frítt net, er í sérstöku samstarfi við JetBlue. Það þýðir að þú getur bókað farangur alla leið ef þú heldur áfram með JetBlue innan Bandaríkjanna eftir flug með Icelandair. Svo er JetBlue almennt að bjóða mjög lág fargjöld miðað við fína þjónustu. Það höfum við hjá Fararheill prófað nokkrum sinnum og getum vottað.