Skip to main content

Þó vandamálið hafi minnkað duglega eftir að gestum gafst færi á að tjá skoðanir á hótelum og gististöðum á samfélagsmiðlum finnast þeir enn hóteleigendurnir sem reyna eins og þeir geta að græða á gestum sínum eins og þeim er framast unnt.

Ef þú ert að lesa þennan miða hefur enginn skipt á rúmfötunum. Mynd Reddit

Engin tíðindi þar fyrir flökkufólk sem elskar að þvælast um hina og þessa staði á heimskringlunni.

Við slíkar aðstæður þarf stundum að halla höfði á misjöfnum gististöðum eins og gengur. Ónýtar perur í lömpum, hárflyksur í sturtunni, blóð á koddanum, líkhlutar í míníbarnum.

Ok, líkhlutar í hótelbarnum kannski langsótt en það þarf ekki einu sinni að vera eitthvað skítapleis til að finna misjafna hluti. Það gerist líka nokkuð reglulega á betri hótelum heimsins.

Dæmi um það má sjá á skjáskotinu hér til hliðar. Þessi mynd birtist á vefmiðlinum Reddit fyrir nokkru en þar segir í fyrirsögn: Ætlaði að fara að leggja mig á hótelinu þegar ég heyrði eitthvað skrjáf. Leit undir rúmfötin og fann þennan miða. Á miðanum stendur: „ef þú ert að lesa þennan miða hefur enginn skipt á rúmfötunum.“

Bréfsefnið merkt Marriott hótelkeðjunni sem þykir móðins en ekkert liggur fyrir um hvaða hótel um ræðir nákvæmlega. En stórt kúdos á þann einstakling sem datt þetta í hug því hugmyndin er stórkostleg. Ef allir settu slíka miða undir rúmfötin þegar tékkað er út af hótelum má fastsetja að innan skamms tíma ganga allir alls staðar að tandurhreinum rúmfötum á hótelum.

Það er auðvitað stór kostnaðarliður hjá hótelum að þrífa eftir gesti sína og sé hægt að stytta sér leiðir í því ferli má spara allnokkrar upphæðir án þess að nokkur verði var. Nema auðvitað við setjum öll svona miða undir rúmfötin áður en við höldum heim. Þá fá viðkomandi hóteleigendur fljótt mínus í kladdann 🙂