Að fara alla leið til Flórída í Bandaríkjunum og ekki njóta strandlífs á þeim aragrúa stranda sem þar er að finna er jafn fáránlegt og að kaupa ekkert kaffi í Kólombíu eða sleppa ísnum á ferð um Grænland. En að gamni slepptu er strandlífið í Flórída minna spennandi en margur heldur.

Græni liturinn táknar þær strendur Flórída sem uppfylla kröfur. Það er lítið hlutfall.
Græni liturinn táknar þær strendur Flórída sem uppfylla litlar kröfur umhverfisstofnunar Bandaríkjanna. Allar hinar eru þessar vafasömu með mengun og vibba um allt.

Nánar tiltekið ekki strandlífið per se heldur að busla í sjónum. Það helgast af mikilli mengun vestanhafs, mengun sem safnast töluvert saman í Mexíkóflóanum og ekki síður þar sem Atlantshafið og Karíbahaf mætast við Flórídaskaga.

Nú eru reglur Bandaríkjamanna um hollustu og hreinlæti á ströndum ekki jafn harðar og krafist er víða í Evrópu en þó kröfurnar séu minni er engu að síður fjöldi vinsælla stranda á Flórída sem ekki standast jafnvel þær lágmarkskröfur. Sérstaklega ekki þegar kemur að vatnsgæðum.

Þetta má sjá í skýrslu um vatnsgæði við strendur Flórída og þar tekið mið að svokölluðum BAV-staðli Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna. Fyrst stendur upp úr hversu fáar strendur fylkisins hafa verið mældar, tæplega 700 af rúmlega átta þúsund, en síðan er sláandi að af þeim sem mælingar ná til eru aðeins 89 þeirra sem mælast undir viðmiðunarmörkum BAV. Allar aðrar opinberar strendur mælast of mengaðar að einhverju leyti og vatnsgæði vel undir því sem hollt getur talist.

Svona ef þetta sannfærir þig ekki er líka hægt að skoða vef samtakanna Blue Flag sem fylgjast með vinsælum ströndum heimsins og gefa einkunn. Þær strendur einar hljóta Bláfánann sem eru hreinar og lítt mengaðar. ENGIN strönd í Flórídafylki kemst á listann.

Ekkert stórhættulegt kannski að henda sér út í en líka ágætt að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum sem öðrum. Fyrir utan þá staðreynd að hákarlar eru töluvert algengir í hafinu kringum Flórída 😉