Kannski hljómar það lítt spennandi fyrir bleiknefja frá Íslandinu að heimsækja Ástralíu í maí, júní eða júlí. Það er jú FUNHEITT í Ástralíu og eflaust aldrei heitara en yfir sumarmánuðina. Raunin er þó að BESTI tíminn að heimsækja Ástralíu er maí, júní og júlí og þá ekki síst Sidney.

Það auðvelt fyrir okkur Frónbúa líka að gleyma því að maí, júní, júlí og ágúst eru alls ekki sumarmánuðir í Ástralíu. Ekki svo að skilja að það séu neinir VETRARMÁNUÐIR per se í landi andfætlinga en þeir sjálfir, í það minnsta, kalla sumarið okkar vetur. Og, nota bene, meðalhitastig í Sidney yfir VETRARMÁNUÐINA eru sextán gráður. Alveg hræðilegt ekki satt. Aumingja fólkið að þurfa að kúldrast í slíkum fimbulkuldum daginn út og inn 🙂

En sé áhugi á dúlleríi í stórborginni Sidney er líklega ekki til betri tími heimsóknar en maí og júní. Ekki aðeins er hitastigið að meðaltali AÐEINS 16 gráður heldur og fer þá fram hin árlega Vivid Sidney hátíð og sú ekki af verri endanum. Þá kalla andfætlingar til alls kyns sérfræðinga og prímusa til að blása lífi í borgina og kalla fyrirbærið Vivid Sidney.

Vivid Sidney, sem þýðir lifandi Sidney á frummálinu, þýðir að blásið er til veislu þann tíma sem hátíðin stendur yfir. Veislu fyrir augað. Eins og sjá má glögglega á meðfylgjandi myndbandi:

Á heimasíðu hátíðarinnar má sjá hvenær nákvæmlega fræðingar héðan og þaðan lýsa borgina upp eins og enginn sé morgundagurinn. En þú ert nokkuð nærri lagi að dvelja hér síðustu tvær vikurnar í maí og fyrstu tvær vikurnar í júní. Þann tíma er borgin töluvert fallegri en ella 🙂