Alls kyns aðferðir eru sagðar árangursríkar til að fækka þessum aukakílóum sem hlaðast utan á okkar flest hraðar en mý á mykjuskán. Ein aðferð sem sjaldan er nefnd er að fara EKKI í skemmtisiglingu.

Lífið er ljúft í skemmtisiglingum en það kemur fljótt niður á líkamsþyngd.
Lífið er ljúft í skemmtisiglingum en það kemur fljótt niður á líkamsþyngd.

Hvaða tenging getur mögulega verið á milli þess kannt þú að spyrja.

Jú, hið ljúfa líf á sjó í viku eða tvær er auðvitað ekkert annað en dekur og bómull nánast út í eitt. Hlaðborð í hvert mál, drykkja ívið meiri en almennt á landi og stutt að sækja afþreyingu af ýmsu tagi og hanga upp í rúmi eða á sólstól þess á milli.

Það þarf ekki háa reiknigetu til að geta sér þess til að almennt hreyfingarleysi í siglingu þar sem hver freistingin rekur aðra mun líklega sjást á vigtinni fyrr en síðar. Þarf þó ekki getgátur til. Þetta staðfesta minnst tvær kannanir sem gerðar hafa verið meðal fólks sem komið hefur úr slíkum siglingum. Báðar sýndu svipaða niðurstöðu: Almennt bætir fólk á sig þremur til fimm kílóum á tveggja vikna skemmtisiglingu.

Auðvitað geta ákveðnir einstaklingar forðast slíkt með líkamsrækt og eða gæta þess hvað þeir setja inn fyrir varir sínar og hversu oft. En slíkt stemmir ekki alveg við hugmynd flestra um ljúfa siglingu undir sólinni. Fátt ljúft við að passa sig á alla kanta í fokdýrri skemmtisiglingu og við skulum bara vera heiðarleg við okkur sjálf: auðvitað látum við allt eftir okkur á lúxussnekkju þar sem allt er til alls í seilingarfjarlægð…