Lítið hefur farið fyrir þeim tíðindum  að 86 sinnum á síðustu tólf mánuðum hafa áætlunarvélar þurft að lenda á miðri leið sökum átaka farþega sem töldu á sig hallað. Í orðsins fyllstu.

Þröngt mega sáttir sitja en ósáttir ekki. Mynd Lars Plougman
Þröngt mega sáttir sitja en ósáttir ekki. Mynd Lars Plougman

Enginn vafi leikur á því að þetta er eitt það allra versta við flugferðir í dag. Sú staðreynd að flugfélög þrengja sýknt og heilagt að farþegum sínum og sætisbil hjá þeim mörgum svo lítið að það getur gert annars indælt flugið að hreinni martröð fyrir farþega. Jafnvel valdið slysum.

Lítið bil milli sæta verður þó sýnu verra þegar farþegi í sæti fyrir framan ákveður að halla sér aftur til að leggja sig eða lesa. Áður fyrr þótti þetta sjálfsögð þægindi og vandræðalaust enda bil milli sæta nægilegt til að það olli farþega í næsta sæti litlum vandræðum.

Nú er öldin önnur. Ekki aðeins er sætisbil mun minna heldur ekki síður er stólbakið oft notað til þjónustu ólíkt því sem áður var. Það þekkja það sennilega einhverjir að ekki er mjög auðvelt að horfa á kvikmynd í flugi hjá Icelandair ef sá fyrir framan hallar sætinu eins og hægt er.

Sömuleiðis er vonlítið við þær aðstæður að vinna á fartölvu og jafnvel að opna matarbakkann verður þrekvirki ef sætisbakið er alveg niðri. Þá má heldur ekki gleyma að hávaxnir aðilar eða þybbvaxnir geta hreint og beint slasað sig sé sætinu fyrir framan hallað í einu vetfangi í þeim vélum þar sem sætisbil er hvað minnst.

En í stað þess að vera með leiðindi, læti eða láta hnefana tala þegar á mann er hallað í flugi ætti fólk að halda ró sinni. Vegna þess að til er allgott ráð til að fá leiðindaplebbann í hallandi sætinu fyrir framan til að hætta að halla sér einn, tveir og þrír og það án mikilla aðgerða.

Hafðu vatnsglas við höndina og byrjaðu að hnerra eða hósta af eins miklum móð og hægt er. Hóstaðu upp í loftið fyrir ofan hallandi manninn/konuna og um leið og þú gerir það skvettir þú dropa eða tveimur af vatni yfir sætið fyrir framan. Undantekningarlítið kýs fólk strax að setja sæti sitt upp fremur en eiga á hættu að veikjast af óþverra hjá manneskjunni fyrir aftan. Svo hallar þú aftur augunum og slakar. Engin lög gegn hósta 🙂

One Response to “Ef á þig er hallað í flugi er þetta vænlegt ráð”

  1. Matthías,

    Ég sat í löngu flugi hjá Norwegian þegar maður fyrir framan sessunaut minn hallaði sætinu aftur. Sessunauturinn barði margoft í efsta hluta sætisins uns sá fyrir framan rétti úr sætisbakinu á ný. Ég bjóst alveg eins við slagsmálum en sá fyrir fram lét sér þetta þó lynda. – Ég mæli ekki með þessari aðferð en það er líka hægt að tala við flugfreyju …