Skip to main content

Við höfum þegar skýrt frá viðbrögðum Skúla Mogensen og hans fólks hjá Wow Air við þeim tíðindum að eitt besta lággjaldaflugfélag heims, easyJet, ætli að stórauka framboð sitt á ferðum til og frá Íslandi í framtíðinni. Fundahöld eru væntanlega líka grimm og mikil hjá Icelandair og óhætt teljum við að veðja á að stöku flugferðir þess flugfélags lækki líka nokkuð fljótlega.

Lággjaldaflugfélagið easyJet stóreykur umsvif sín hérlendis okkur öllum til heilla. Fararheilla. Mynd Clement Alloione

Lággjaldaflugfélagið easyJet stóreykur umsvif sín hérlendis okkur öllum til heilla. Fararheilla.
Mynd Clement Alloione

Þetta er góður tími fyrir alla nema kannski hluthafa Icelandair og þar með Skúla Mogensen hjá Wow Air sem á víst, eða átti, nokkur hlutabréf í samkeppnisaðilanum hversu galið sem það kann að hljóma. Þó hækkaði verð á bréfum Icelandair lítillega í dag merkilegt nokk, því stóraukin samkeppni við vinsælt lággjaldaflugfélag á glænýjum vélum á tveimum flugleiðum Icelandair ætti undir venjulegum kringumstæðum ekki að vera neitt tilefni til að henda í partí. En nóg um það.

Einn spánýr áfangastaður verður í boði í beinu flugi easyJet frá næsta vetri. Það er Belfast á Norður-Írlandi. Hinir tveir staðirnir eru Genf í Sviss sem Icelandair hefur flogið til um hríð og svo Gatwick flugvöllur við London.

Bæði Icelandair og Wow Air notast við Gatwick flugvöll sem er öllu betur staðsettur en aðalvöllur easyJet við Luton sem hingað til hefur verið í boði héðan. Engin spurning er um að eftirleiðis mun verðsamkeppni á þeirri leið harðna til muna hjá öllum þremur flugfélögum. Hvort Wow Air hefur bolmagn til að keppa við risa á borð við easyJet á eftir að koma í ljós. Icelandair hefur bolmagnið en ekki mikið meira og getur ekki státað af betri vélum eða þjónustu en easyJet. Þetta verður skemmtilegur sirkus að fylgjast með og við njótum góðs af.

Þó ekki virðist Belfast ýkja sexí fyrir landann þá er það fjarri því slæmt mál. Norður-Írland er ekki síður fallegt en stóri bróðir til suðurs og írska eyjan ekki svo frámunalega stór heldur langi fólk að flakka. Fararheill tilnefndi Dublin sem frábæra borg heimsóknar hér fyrir tveimur árum sökum þess að verðlag þar hefur haldist lágt eftir efnahagskrísuna þar en þar reyndar er flest á uppleið og verðlag með. Þá má heldur ekki gleyma að easyJet býður flug þaðan til fjölmargra annarra áfangastaða í Evrópu. Fín skipti við London sem kannski einhverjir hafa fengið nóg af.

Genf er annað mál. Ekkert flugfélaganna er að horfa mikið í Íslendinginn á þeirri flugleið heldur næla í peninga moldríkra Svisslendinga sem eins og Þjóðverjar horfa nokkuð upp til Íslands og Íslendinga almennt talað. Verðlag í Sviss er þó svo hátt að þar spókar sig enginn meðal Íslendingur án þess að finna mjög duglega fyrir í veskinu.

Nú má Vueling fjölga ferðum og leiðum og Norwegian sömuleiðis til og frá Íslandi og þá steinhættum við hjá Fararheill að kvarta. Þá erum við Íslendingar komnir inn í nútímann.