Hvað ferðalög áhrærir lítur nú allt til betri vegar fyrir landann. Icelandair ekki lengur að einoka markaðinn með sín sovésku fargjöld (nema til Grænlands) og við komumst hingað og þangað fyrir klink og ingenting. Nú vantar bara að aflétta einokun og bullandi okri á ferðum til og frá Leifsstöð með leigara.

Leigubílaþjónusta á Íslandi er sú dýrasta á byggðu bóli. Segjum og skrifum. Inn með Uber. Mynd twerky

Eins og lesendur okkar vita hækka rútufargjöld til og frá Leifsstöð hraðar en ljósið ferðast þessi dægrin. Það helgast af landlægri græðgi þeirra sem eiga stærstu fyrirtæki landsins. Sá tæplega sex þúsund kall sem manneskja þarf að punga út fyrir rútutúr til Leifsstöðvar og í höfuðborgina aftur myndi víðast annars staðar duga fyrir leigubíl svipaða vegalengd og þú ættir feitt klink eftir fyrir kleinu og kaffi og gætir jafnvel boðið með þér.

Sem vekur upp spurninguna um hvers vegna það kostar líka handlegg, fótlegg, milta og nýru að húrrast með íslenskum leigara til Leifsstöðvar eða sömu leið til Reykjavíkur. Leigubílastöðinni Hreyfli þykir svo mikið til fargjalda sinna til Leifsstöðvar (eða öfugt) koma að þar halda menn sérstaklega á lofti að slíkur túr með hefðbundnum leigubíl af minni gerð kosti „aðeins“ sextán þúsund krónur. Þar um sértilboð að ræða.

Hahahahahahaha!!!

Það er álíka langt frá flugvellinum í Munchen og inn í miðborg og frá Leifsstöð inn í miðborg Reykjavíkur. Einhver verðmunur á leigurum? Heldur betur…

Það er eitthvað alvarlegt í hausnum á fólki sem telur að sextán þúsund krónur sé gott og eðlilegt verð AÐRA LEIÐ fyrir 30 til 40 mínútna bíltúr. Vel yfir 30 þúsund ef þú pantar bíl fram og aftur frá Leifsstöð.

Skoðum til samanburðar hvað flugvallatúr kostar í nokkrum tilteknum borgum heims. Þar á meðal hjá þeim þjóðum sem þykir hvað dýrast að heimsækja á heimsvísu samkvæmt könnunum.

Byrjum á Hamborg. Á annatíma tekur það leigubíl um 30 til 35 mínútur að fara frá flugstöðinni inn í miðborg eða öfugt. Prísinn fyrir þann pakka aðra leiðina: 3.600 krónur. Lendi fólk í Munchen og ætli í miðborg þeirrar borgar tekur sá túr svipaðan tíma og það tekur að fara á völlinn hér heima eða um 45 mínútur ef umferðin er ekki morð. Meðalkostnaður fyrir leigara 7.600 krónur.

Ók, kannski slæm dæmi. Það er jú allt í volli í Þýskalandi og allir þar á lægri launum en hérlendis (ekki.)

Kíkjum til London. Leigubílatúr frá Heathrow á hótel í miðborginni kostar gróflega 8.000 krónur svona almennt yfir daginn. Ætli ferðafólk frá flugvellinum í Toronto í Kanada og inn í miðborg þar sem flest hótelin eru staðsett kostar 35 mínútna túrinn aðra leið að meðaltali 4.800 krónur. Það tekur líka 35 mínútur að flakka úr miðborg Bangkok í Tælandi og út á völl. Þar þarf aldeilis að koma við í bankanum til að eiga fyrir fargjaldinu aðra leið sem reynist vera um 800 krónur íslenskar.

Það tekur líka 45 mínútur að fara inn í miðborg Istanbúl frá flugvelli borgarinnar svona heilt yfir. Jafnvel þó tyrkneskir leigubílstjórar séu ekki heimsþekktir fyrir að fara beinustu leiðina með ókunnuga er meðalprísinn um 5.000 krónur.

En ók. Slæm dæmi aftur. Tæland er þriðja heims, allir lifa á klinki í Tyrklandi og hvorki London né Toronto eru samanburðarhæfar enda bæði pund og kanadískur dollar á rífandi uppleið (ekki.)

Skoðum þá hvað leigabílstjórar bjóða okkur í Sviss, Svíþjóð og Noregi en allar þrjár þjóðir þykja með þeim allra dýrustu að lifa í og njóta fyrir Jón og Gunnu.

Leigubíll frá flugvellinum í Zurich inn í miðbæ tekur um 25 mínútur og það kostar þegar þetta er skrifað að meðaltali um 7.000 krónur miðað við gengi dagsins. Ágætt að muna að meðallaun í Sviss árið 2016 námu 540 þúsund krónum eða 120 þúsund krónum hærri en meðallaun á Íslandi á sama tíma.

Lendi Íslendingur á Gardemoen í Noregi og vilji taka leigara inn í miðborg Osló tekur sá túr, algjör tilviljun, um 45 mínútur ef ekkert er stórvesen. Norskurinn ekki vanur því að vinna fyrir klink en merkilegt nokk komumst við alla leið fyrir svo mikið, eða lítið, sem 10.700 krónur að meðaltali. Bara 50% lægra meðalverð en hér heima og það í Noregi af öllum stöðum.

Kíkjum að síðustu á leigubílafargjaldið í Gautaborg í Svíþjóð en þar hefur verið þokkaleg velmegun um áraraðir. Gróflega tekur um 25 mínútur að flakka frá flugvellinum og inn í miðborg á venjulegum degi. Kostnaðurinn við það hjá þeim sænsku: 5.500 krónur eða svo miðað við gengi dagsins. Rösklega 190% ódýrara en að skottast í Leifsstöð úr miðbæ Reykjavíkur þó vissulega sé síðarnefnda ferðin tíu til fimmtán mínútum lengri.

Við gætum haldið áfram en lesendur eru væntanlega flestir búnir að átta sig á að það er feitt verið að taka okkur í afturendann í leigubílabransanum eins og í bankabransanum og víðast annars staðar í landinu.

Ekki svo að skilja að leigubílstjórar per se hafi það mjög gott á Íslandi. Flestir lifa líklega sæmilegu lífi og komast til Kanarí tvisvar á ári en þeir samt svona nokkuð á pari við bændur landsins sem fá að mestu skít og kanil fyrir störf sín þrátt fyrir að lambalærið í næstu verslun sé næstum þyngdar sinnar virði í gulli virðist vera.

Það vantar Costco í leigubílabransann og þar auðvitað bandarísku Uber eða Lyft fremst jafningja. Jafnvel þó finna megi mjög margt athugavert við rekstur þeirra fyrirtækja er alveg fráleitt að við séum að borga tugum eða hundruðum prósenta hærra verð fyrir vöru en gerist í allra dýrustu löndum heims.

Eða hvað finnst þér?