Sífellt stærri hluti ferðamanna getur ekki hugsað sér að hreyfa spönn frá rassi og hvað þá æða erlendis án þess að grípa fartölvuna með sér enda orðin ómissandi hluti í lífi margra.

Það er hins vegar svo að ekki eru allar þjóðir jafn framarlega og við Íslendingar þegar kemur að heitum reitum, stöðum þar sem þú nærð ókeypis tengingu við netið, en leitun að slíku í framandi stórborg getur vægast sagt verið pirrandi og tímafrek.

Lausn er hins vegar á þessu vandamáli. Vefmiðilinn www.hotspot.location.com heldur utan um slíkar upplýsingar í flestum löndum heims og því tiltölulega handhægt að fletta því upp og prenta út áður en haldið er til erlendis.

Þar er einnig að finna upplýsingar um kostnað, ef einhver, og jafnvel handhæg kort til að finna réttu staðina.

Hafa skal kyrfilega í huga að dýrari hótel taka mörg hver góðan skilding fyrir nettengingar á herbergjum meðan kaffihúsið á móti hótelinu tekur ekki krónu ef keypt er kaffi og kleina. Það ferðalag er því fljótt að borga sig.

Fararheill.is mælir með að ferðalangar kynni sér vel hvað þráðlaus tenging sem fjölmörg hótel bjóða kosti en sá kostnaður getur hlaupið á talsverðum upphæðum sérstaklega á dýrari hótelunum.