Hinn íslenski flugleitarvefur Dohop stendur sannarlega fyrir sínu sem endranær samkvæmt síðasta samanburði Fararheill. Þar reyndist sá íslenski bjóða næstbesta verðið til Parísar og heim aftur í júlí og sló þar risavefi Kayak og Cheapoair í gólfið. En allra best var þó að Dohop var sá eini af fimm stórum leitarvélum sem benti leitendum á mun ódýrara fargjald væru ferðadagar sveigjanlegir.

Fararheill gerir reglulega samanburð milli hinna og þessara flugleitarvéla sökum þess að þó allar stæri sig af því að bjóða mest og best getur munurinn milli þeirra verið talsverður.

Í þetta sinn leituðum við að flugi frá Keflavík til Charles de Gaulle vallar í París frá 8. júlí og heim aftur 22. júlí fyrir einn einstakling. Allar fimm vélarnar skiluðu ódýrustu niðurstöðunni með Wow Air sem kemur ekki á óvart en það kom spánskt fyrir sjónir að einn aðilinn vildi meina að Iceland Express væri einnig að bjóða vel á þessari leið.

Það er danski vefurinn Momondo sem reyndist bjóða best en fargjaldið báðar leiðir kostaði 68.036 krónur eða örlítið ódýrara en Dohop sem fann fargjald báðar leiðirnar á 68.390 krónur eða nákvæmlega sama verði og fæst á vef Wow Air. Aðeins dýrari var bandaríski vefurinn Cheapoair með 71.076 krónur og hinn breski Skyscanner fann best 72.528 krónur. Áberandi dýrast var flugið gegnum hinn bandaríska Kayak sem margir Íslendingar virðast halda að sé mjög merkilegur. París fram og aftur hjá þeim fékkst á 80.770 krónur.

Hafa skal í huga að hjá þeim aðilum sem ekki birtu verð í íslenskum krónum var fært yfir miðað við miðgengi krónu gagnvart viðkomandi gjaldmiðli klukkan 18 þann 28. maí.

Þessi munur kann að virðast lítilvægur en hafa skal í huga að hér er aðeins um einn aðila að ferðast. Fjögurra manna fjölskylda eða vinahópur tapar rúmlega 52 þúsund krónur á að kaupa far með Kayak en ekki Momondo. Það er ekki hlægileg upphæð á neinu tungumáli.

Dohop fær þó stærstu rósina í hnappagatið því aðeins þeir birtu á áberandi hátt boð um að hægt væri að finna fargjald þessa sömu leið en á öðrum dagsetningum og sparað rúmar fjórtán þúsund krónur í viðbót við lægsta verð þessa daga. Það er heldur ekki ómerkileg upphæð og sýnir aftur og sannar að sveigjanleiki er lykilatriði þegar fólk vill ferðast án þess að kosta til handlegg og fótlegg.

Fararheill mælir enn óhikað með Dohop.

dohop

cheapoair

kayak

momondo

skyscanner

One Response to “Dohop skýtur risunum ref fyrir rass”

  1. Pétur,

    Mér finnst gagnlegt að kíkja á þennan línk hjá Dohop (sjá neðst á síðunni) : http://www.dohop.is/handbok/flugvellir/Keflavik%20Intl%20Airport-KEF/
    Þarna getur maður séð hversu oft og hvaða félög fljúga til Parísar á þessum tíma.
    Við vitum að lággjaldaflugfélagið Transavia flýgur til Íslands frá Orly. Það flýgur héðan 9.júlí og til baka 22.júlí. Dohop fann ódýrast á þessum dagsetningum Transavia út í næturflugi til Orly en Wow air til baka um miðjan dag frá GCD á 61.826.
    Ef bílaleigubíll er notaður þá er þetta víst ekki hagstætt að fá bíl á Orly og skila á GCD. Fáránlega dýrt að skila bíl á öðrum stað en hann var afhentur.