Fyrir sólarhring síðan kynnti Google til sögunnar nýja flugleitarvél sína eins og Fararheill.is hefur greint frá. Á sú að vera einstök á alla lund en þó er erfitt að meta hversu góð hún er raunverulega þar sem aðeins eru í boði örfáir áfangastaðir innan Bandaríkjanna eins og sakir standa.

Og þó!

Fararheill.is framkvæmdi samanburð milli ferðaleitarvefsins Dohop.com en sá er íslensk smíð og bar saman við niðurstöður Google Flight Search.

Leitað var að lægsta verði fram og til baka milli San Francisco og New York 1. til 5. október næstkomandi.

Af niðurstöðunni má glögglega ráða að Google þarf töluvert að fínpússa fíneríið sitt ef sú leit á að verða samkeppnishæf.

Ódýrasta fargjaldið sem glæný leitarvél Google fann var á 49.018 krónur með flugfélaginu Continental. Dohop.is fann ódýrast fargjaldið þessa daga á 38.185 krónur með Delta. Munurinn er 10.833 krónur Dohop í vil.

Gerði ritstjórn sömu leit hjá hinum danska Momondo.com sem einnig er fyrirtaks leitarvél og sömuleiðis þar fengust betri fargjöld en Google finnur best. Momondo fann fargjöld sömu dagana ódýrast með United á 39.425 krónur.

Hvorki Momondo né Dohop kepptu þó við Google í hraða og þá er notendaviðmót Google töluvert betra en hinna tveggja að mati ritstjórnar Fararheill.is

* Samanburður framkvæmdur samtímis á öllum þremur leitarvélum kl. 13:48 þann 14. september. Fargjöldum Google breytt í íslenskar krónur með gjaldeyrisreikni XE.com. Bæði Dohop og Momondo kynntu verð í íslenskum krónum.