Valið kann að virðast auðvelt við fyrstu sýn. Það er jú ekki eins og hin gullfallega indónesíska eyja Balí sé ýkja stór og því vandalaust að finna stað við hæfi allra ekki satt?

Það fer hundrað prósent eftir að hverju þú leitar hvar best er að drepa niður fæti á Balí. Höfuðborgin Denpasar.

Það er ekki eins og skipulagðar ferðir til Balí héðan frá Íslandi séu algengar en þá sjaldan það gerist þá eru áfangastaðirnir á eynni mikið til þeir sömu og flestir velja sem skipuleggja sínar eigin ferðir: Ubud, Denpasar og Kuta eða blanda af þessum þremur.

Það helgast eingöngu af því að þessir þrír staðir eru þeir allra vinsælustu á Balí og eðli máls samkvæmt fer langmest fyrir þeim á samfélagsmiðlum. Þar má auðvitað líka finna mesta úrval gistingar, matsölustaða og afþreyingar hvers kyns.

En er einhver veigamikill munur á þessum þremur stöðum?

Vinsæl markaðsgata í Ubud á Balí.

Svo sannarlega er svarið við þeirri spurningu og hafi fólk fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvernig frí þú vilt njóta á Balí er óvitlaust að vita gróflega muninn.

DENPASAR: Þetta er höfuðborg Balí-eyjar og sem slík er hún ekkert ýkja frábrugðin öðrum nútímalegum borgum heims. Flottar verslanir, ys og þys öllum stundum á götum úti og stöku háhýsi prýða sjóndeildarhringinn þó enn sé ekki byggt mjög hátt hér í borg. Víða má finna fátækrahverfi eins og í öðrum heimsins borgum. Hér er mikið úrval stórfínna veitingahúsa þó mörg þeirra fái aldrei Michelin-stjörnur og sé hugmyndin að versla kemur enginn annar staður til greina á Balí. Þá er það hér sem helstu söfn eyjunnar og helstu stjórnsýsluhús er að finna. Meðalverð á fimm stjörnu hóteli um 21 þúsund krónur per nótt.

Hefðbundinn dagur á strönd Kuta. Allt troðið af fólki. Mynd Zul Trio Anggono

KUTA: Fyrir nokkrum áratugum síðan var Kuta næsta óþekkt fiskimannaþorp í næsta nágrenni við höfuðborgina. Nú er staðan þó sú að Kuta er nánast orðið úthverfi Denpasar og er því vin í eyðimörkinni ef svo má að orði komast. Velflestir ferðamenn þurfa meira að segja að skrölta gegnum Kuta til að komast til Denpasar frá flugvellinum og því hæg heimatökin að planta rassinum hér en ekki í höfuðborginni. Fyrir vikið færðu aðgang að fimm stjörnu strandsvæði, gnótt tækifærissinna sem vilja selja þér glyngur og glys og velflesta daga ársins eru strendurnar svo pakkaðar að þú getur varla heyrt þig hugsa. Þetta er svona nett Benídorm árið 1999 og partíið er nonstop. Meðalverð á fimm stjörnu hóteli um 26 þúsund krónur per nótt.

UBUD: Ólíkt þeim tveimur fyrrnefndu er Ubud ekki strandbær heldur spölkorn inni í landi til norðurs af höfuðborginni. Hann náði athygli erlendra ferðamanna nánast eingöngu út af því að hér er dvalarstaður einnar af þeim konunglegu fjölskyldum sem ráða ríkjum á eynni. Ekki ósvipað Hua Hin í Tælandi sem einnig náði vinsældum sökum návígis við konungborna þar í landi. Ekki skemmdi heldur fyrir að handverksfólk og miðlar af ýmsum toga hafa átt hér samastað um ár og aldir en eyjaskeggjar eru trúaðir með afbrigðum og leita gjarnan ráða hjá yfirnáttúrulegum öflum. Þá er Ubud staður númer eitt, tvö og þrjú. Hér of mikið af ferðafólki þessi dægrin en samt ekki þessi yfirþyrmandi ys, þys og hávaði sem fyrrnefndu staðirnir þjást af. Hér er betra að njóta ef sandur og sjór er ekki í uppáhaldi. Meðalverð á fimm stjörnu hóteli um 19 þúsund krónur per nótt.

Af kortinu má sjá að þrátt fyrir að töluverður fjöldi ferðafólks skottist í stöku skipulagðar ferðir um eyna þá má heita að 90 prósent þeirra sem heimsækja Balí eyði öllum sínum tíma á þessum þremur stöðum. Sem er lítið annað en galið því þótt engir aðrir staðir eyjarinnar séu „frægir” er heimafólkið annars staðar enn vinsamlegra en ella og sölufólk og prettarar ekki að reyna að losa þig við fjármuni á fimm mínútna fresti. Plús að fegurðin er jafnvel meiri en á þessum vinsælu.

Sem er risaplús í okkar bókum…