Það er afskaplega lítill munur á þjónustu í Hagkaup annars vegar og Bónus hins vegar þó sami aðili reki bæði fyrirtæki. Á báðum stöðum má leita um eilífð eftir aðstoð eða þjónustu af einhverju taginu jafnvel þó fyrrnefnda verslunin leggi 100 prósent meira ofan á flestar vörur. Samt má, merkilegt nokk, enn finna fólk í verslunum Hagkaupa.

Bandaríska flugfélagið Delta ætlar ekki í kapphlaup á botninn heldur þvert á móti bæta þjónustu á almenningsfarrými talsvert án þess að hækka miðaverð.

Að sama skapi var afskaplega lítill munur á þjónustu um borð í rellum Icelandair og rellum Wow Air þegar hið síðarnefnda var og hét. Ef ekki var rass á viðskiptafarrými var sætisbil þrengra en nálarauga hjá báðum, sama yfirborðskennda þjónustan ef einhvern vanhagaði um eitthvað á flugi, fjöldi salerna um borð sá sami hjá báðum og skitin hituð samloka  á leiðinni kostaði árslaun verkamanns.

Við hér nokkrum sinnum gegnum tíðina bent Icelandair á að það sé ekki til eftirbreytni að bjóða sífellt fátækari þjónustu til að keppa við lággjaldaflugfélögin en heimta samt þetta 20-30 prósent hærra verð fyrir miðann. Þvert á móti væri ráð að halda áfram að bjóða þó einhverja lágmarksþjónustu og heilla þannig alla þá sem ekki fíla níðþröng sæti og vatnsglas á þúsund kall.

Víst voru sæti í flestum vélum Icelandair örlítið rúmbetri en Wow Air bauð á almennu farrými og víst var vatnsglasið oftast nær frítt hjá þeim fyrrnefndu en þá var sagan sögð. Að öðru leyti var bæði flugið og þjónusta um borð að mestu á parinu. Sem gæti úrskýrt þessa fregn okkar frá desember 2014 og þessa fregn okkar frá nóvember 2015.

Delta snýr við blaði

Merkilegt nokk hyggst bandaríska flugfélagið Delta Airlines, sem meðal annars flýgur til og frá Íslandinu góða, snúa blaðinu aldeilis við frá og með nóvember næstkomandi. Þaðan í frá fá allir farþegar á almenningsrými og uppúr fría máltíð á alþjóðaleiðum og drykkir, óáfengir eða áfengir, fylgja með í kaupbæti. Já, þú last þetta rétt; máltíð og öl eða gos fylgja með í pakkanum á almenningsfarrými hjá Delta.

Þetta kann að hljóma framúrstefnulegt en er það þó ekki. British Airways hefur alla tíð boðið sínum alþjóðafarþegum upp á hressingu og eitthvað matarkyns með án aukagjalds og það flugfélag flýgur líka til og frá Íslandinu góða nokkuð reglulega. Þá var slíkt regla en ekki undantekning hér fyrir fimmtán árum síðan eða svo hjá betri flugfélögum heimsins.

Kannski þess vegna sem Delta og BA eru almennt ekki talin lággjaldaflugfélög eins og Icelandair, sem eins og stórfyrirtækið Boeing, eyddi milljörðum króna í að kaupa bréf í sjálfu sér í stað þess að bæta þjónustuna og heilla viðskiptavini með framúrskarandi þjónustu…