Skemmtiferðaskipið Carnival Pride var rétt í þessu að leggjast að bryggju á einni af hinum indælu Turks & Caicos í Karíbahafi . Á sama tíma er skemmtiferðaskipið Carnival Dream að hleypa farþegum frá borði á lítill eyju útifyrir Belís.

Nei, við erum ekki í skype- eða símasambandi við neinn aðila í þessum tveimur skemmtiferðum. Við notumst bara við nýlegan og æði frábæran vef sem gefur upp staðsetningu skipa heimsins nánast í rauntíma.

Slíkir vefir hafa skotið upp kollinum allra síðustu misseri en eins og við höfum greint frá er sáraeinfalt að fylgjast með flugumferð í háloftunum hverja sekúndu dagsins. Flott til dæmis til að ganga úr skugga um að mamma og pabbi hafi nú komist klakklaust til Tenerife eða til að ganga úr skugga um að vélin frá Edinborg lendi á réttum tíma í Keflavík.

Nú er sama hægt með skipin gegnum vefinn Marine Traffic en þar eru listuð öll lögleg skip alls staðar í heiminum. Við segjum lögleg því væntanlega eru óprúttnir aðilar ekki að útvarpa staðsetningu skipa sinna. Eyjamenn geta nú séð hvenær fiskiskip þeirra snúa aftur til hafnar eða hvenær tími er til að halda út í fiskvinnslu á Eskifirði. Og ekki síst fylgjast með ef ættingjar og vinir eru heilu og höldnu að fara gegnum Panama skurðinn.