Þetta hljómar virkilega kjánalega. Bjór eru jú framleiddur til að notast innvortis en engu að síður hefur ný tískubylgja breiðst hratt út í austurhluta Evrópu síðustu misserin og árin. Bjórböð eru málið og þykja meina bót þó ekki allra meina.

Bjórböð eru það heitasta í heilsulindarbransanum í Evrópu. Slíkar heilsulindir njóta vaxandi vinsælda
Bjórböð eru það heitasta í heilsulindarbransanum í Evrópu. Slíkar heilsulindir njóta vaxandi vinsælda

Hörðustu bjóraðdáendur hafa hingað til látið nægja að sturta bjórum í sig innvortis en í Tékklandi, Austurríki, Úkraínu og Þýskalandi er hópur fólks sem stundar bjórböð og það reglulega. Það merkilega er að þetta fólk er ekki lengur talið sérvitringar eins og áður heldur skyndilega hinn eðlilegasti hlutur.

Kannski trúa menn því að bjórinn sé hollur útvortis eins og heitustu unnendur þessarar tísku vilja meina og hafa kannski sitthvað til síns máls. Að vera umvafinn bjór er varla verri meðferð en kínversk eldmeðferð eða jarðsteinameðferð í Ekvador eða hvað þetta allt sull og prjál heitir sem á að gera okkur lífið léttara, hollara og hamingjusamara..

Þeir sem til þekkja segja bæði slakandi en jafnframt örvandi að sitja í bjórbaði. Lyktin kemur jú fólki fljótlega í létta stemmningu meðan mjöðurinn klístrast og ertir líkamann. Auðvitað skiptir tegundin máli. Hér er ekkert Egils Gull sull. Dökkar bjórtegundir þykja vænlegri til meðferðar en þær ljósari. Allra best er þegar bjórinn myndar bólur líkt og hinn frægi Guinness gerir því það finnst fyrir þeim á bólakafi í bjór.

Slíkar bjórmeðferðir eru ekki alveg gefins. Ódýrasti tíminn í bjórbaði á þokkalegum stað kostar ekki undir átta þúsund krónum og er þá aðeins um 20 mínútna bað að ræða. Ekki er heimilt að fá sér sopa reglum samkvæmt enda þyrfti sennilega harðkjarna drykkjumann til að hafa áhuga að svolgra bjór sem hinir og þessir hafa stríplast í þann daginn.

Sjálfsagt er að henda sér í eitt slíkt bað sé fólk á ferðinni um fyrrnefnd lönd en ekki er fráleitt að ætla að vinsældir þeirra fari hvað úr hverju að dreifast víðar. Hér að neðan eru heimasíður nokkurra slíkra bjórbaðshúsa.