Einhvern tímann langað að upplifa það að tæma úr alvöru hríðskotabyssu eins og Rambó? Þreifa í jakkavasanum eftir silfurlitaðri Glock eins og James Bond er tamt að gera? Rífa haglarann af veggnum eins og raunverulegur hillbillí frá suðvesturríkjum Bandaríkjanna og láta vaða út í myrkrið?

Heimavarnarlið Ríga? Nei, bara tveir plebbar á námskeiði. Mynd TRT
Heimavarnarlið Ríga? Nei, bara tveir plebbar á námskeiði. Mynd TRT

Þú lendir í standandi vandræðum hér heima ef þú sést valsa um með AK-47 skjótandi út í loftið. Og fangelsisdómurinn líklega harðari en ella ef þú ert ekki einu sinni með byssuleyfi.

En það er bara á afturhaldsklakanum Íslandi. Annað uppi á teningnum í Lettlandi.

Þeir munu njóta Ríga innilega því hér er gnótt sögufrægra bygginga og nánast ekkert farið í gamla bænum án þess að rekast á merkilegustu hluti eins og lesa má um í vegvísi Fararheill um Ríga.

En fái menn nóg af sögu og menningu er stutt í afþreyingu sem yfirleitt finnst ekki mjög auðveldlega í boði í vestrænum höfuðborgum. Vopnanámskeið. Sem er fallegt orð yfir tvær klukkustundir sem þú færð til að dúndra eins og þig lystir úr AK árásarrifli, ýmsum mismunandi skammbyssum og haglabyssum líka ef vilji stendur til.

Heimamenn kalla þetta Big Gun Shooting Tour og vinsælt er það jafnvel þó taka verði næsta strætó til að komast á staðinn. Túrinn liggur á afvikinn stað innan borgarmarkanna þar sem gestir kaupa vopnapakka og eyða svo næstu stundum að hleypa af eins og þá lystir. Hægt er að kaupa sérstaka Bond-pakka, Rambó-pakka eða sérsníða eftir þörfum og heimildinni á kortinu.

Óvitlaus hugmynd sé fólk á þessum slóðum og draumar allir tengjast vopnum á einhvern hátt. Kannski líka fyrir vinahópa sem vilja prófa eitthvað algjörlega ferskt. Ekki þarf annað til en vera allsgáð og með vegabréf.

Meira hér.