Það er eitthvað hálf furðulegt að lesa í erlendum miðlum að flugvélaframleiðandinn Boeing prófi nú ítrekað áhrif þess að bjóða þráðlaust net um borð í vélum sínum. Ekki síst með tilliti til að upp á slíkt hefur verið boðið í fjölmörgum þotum um talsverðan tíma og þar á meðal vélum Boeing.

Reyndar minnast erlendu miðlarnir, Forbes og Engadged, ekki orði á hvers vegna enn er verið að kanna áhrif tækni sem þegar er í notkun í hundruðum farþegaþota heldur þykir fréttnæmara að Boeing hefur skipt út fólki í tilraunum sínum fyrir kartöflur.

Já, hátæknifyrirtækið Boeing er að kanna áhrif þráðlauss nets í farþegavélum sínum á kartöflum. Fræðingar flugvélaframleiðandans segja nefninlega að þegar allt komi til alls sé manneskjan lítið annað en poki af vatni og þar sem kartöflur séu líka lítið annað en poki af vatni þá smelli þetta eins og flís við rass. Svo sleppur Boeing auðvitað við að bjóða kartöflunum drykki og meðlæti.

En ritstjórn Fararheill er þó djúpt hugsi yfir að enn standi yfir tilraunir með þráðlaust net um borð. Hvernig á að skilja það þegar slíkt er þegar í boði í mörgum vélum.

Ekki síst þar sem Icelandair hyggst bjóða upp á þráðlaust net í sínum gömlu Boeing vélum strax á nýju ári.