Mun fleiri lögregluþjónar eru viðstaddir hið fræga nautahlaup í Pamplóna nú en áður sökum nýrra reglna sem borgaryfirvöld hafa sett vegna San Fermín hátíðarinnar. 

Það getur endað illa að ögra nautunum í Nautahlaupunum á San Fermin og dauðinn aldrei víðs fjarri. Mynd Juan F. Torres
Það getur endað illa að ögra nautunum í Nautahlaupunum á San Fermin og dauðinn aldrei víðs fjarri. Mynd Juan F. Torres

Hátíðin fræga, sem sumir telja þekktustu hátíð Spánar, stendur í átta daga alls og þrátt fyrir efnahagslægð í heiminum 2008 hefur verið stígandi í fjölda gesta til borgarinnar allt frá árinu 1992 samfleytt. Lesa má gróflega um hátíðina hér og hér er vegvísir Fararheill um Pamplóna sjálfa.

Nautahlaupið sjálft eða nautahlaupin reyndar, encierro, er lokahnykkurinn á San Fermin hátíðinni en nú hafa borgaryfirvöld í fyrsta skipti hert til muna reglur vegna hlaupsins. Þær eru tilkomnar til að fækka slysum þeim sem verða meðan á hlaupinu stendur.

Nú sem sagt bannað að fylgjast með annars staðar en bakvið stálgirðingu en hingað til hefur ekki verið sett út á að fólk komi sér fyrir hvar sem það betur getur. Sömuleiðis er nú bann við öllu öðru en að hlaupa af hálfu þeirra sem þátt taka. Oftar en ekki hafa fífldjarfir einstaklingar, og fífl sömuleiðis, gert sér að leik að ögra nautunum meðan á hlaupinu stendur. Slíkt kostar nú drjúga sekt. Þá er einnig bannað að leika tónlist meðan á hlaupinu stendur en eins og kunnugir vita er gefin merki með rakettum hvenær hlaupið byrjar og endar. Hávaði annar getur komið í veg fyrir að þátttakendur heyri þau merki.

Síðast, en alls ekki síst, er lögreglu nú heimilt að fylgja brotamönnum rakleitt að næsta hraðbanka til að greiða sektir sem til koma en erfiðlega hefur gengið að innheimta slíkt eftir á.