Sé hægt að standa og fullyrða um nokkurn hlut undir sólinni má færa til bókar að fáir, ef nokkrir, ferðamannastaðir heims hafa fallið jafn hörmulega af stalli og hinn frægi sólarstaður Acapulco í Mexíkó.

Sjö lík í pokum við eina af hinu frægu ströndum Acapulco. Slík sjón orðið algeng í borginni. Mynd CBC
Sjö lík í pokum við eina af hinu frægu ströndum Acapulco. Slík sjón orðin algeng í borginni. Mynd CBC

Þar finnast ennþá ferðamenn en bara á stangli og strendurnar ekki pakkaðar í sardínuformi eins og raunin var lengst af á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar þegar Acapulco var Benídorm Ameríkana með þeim flotta bónus að trekkja fjöldann allan af stjörnum kvikmynda og tónlistar.

Nú trekkir staðurinn varla klukku. Ástæðan sú sama og kemur í veg fyrir að aðrir staðir í Mexíkó heilli erlenda ferðamenn: alvarlegir glæpir.

Stjórnvöld í Mexíkó hafa lengi vel reynt að vernda Acapulco sérstaklega fyrir glæpahópum sem virðast komast upp með nánast hvað sem er hvarvetna annars staðar í landinu. Þegar glæpatíðni í grenndinni fór að aukast töluvert frá árinu 2006 var herinn sendur til Acapulco en áttu þó að láta lítið á sér bera til að hræða ekki ferðamennina.

Það tókst um nokkurra ára skeið eða fram til ársins 2012 þegar ferðamenn að sóla sig og borða ís á ströndinni fengu loks smjörþef af hinni raunverulegu Mexíkó þegar barátta tveggja glæpagengja barst niður á strönd með tilheyrandi skothríð og dauða. Síðan þá hefur leið Acapulco legið niður á við en glæpagengja upp á við.

Til marks um þá öldu glæpa sem hér viðgengst nú til dags þá voru hér 119 morð framin per 100 þúsund íbúa árið 2016. Það merkir að Acapulco er annar hættulegasti staður heims miðað við þá tölfræði. Töluvert hættulegri en þeir mexíkósku staðir sem oftast komast í fréttir fyrir ofbeldi og viðbjóð hvers kyns.

Eins og alltaf er eins dauði annars brauð og fyrir þau ykkar sem ekki óttast nokkurn hlut er nú hægt að dvelja á fimm stjörnu hótelum í Acapulco niður í fimm þúsund krónur per nótt. Um það bil 400% lægra verð en bauðst að meðaltali um aldamótin þegar enn þótti móðins að hanga hér.