Misjafn sauður í mörgu fé. Dittó á bílaleigur þessa heims. Sumar þeirra komast upp með alls kyns svindl og svínarí árum saman.

Varasöm fyrirtæki
Varasöm fyrirtæki

En annað máltæki segir að upp komist svik um síðir. Það má heimfæra á bandarísku bíleigurnar Thrifty og Dollar sem báðar eru í eigu hinnar risastóru Hertz-bílaleigukeðju.

Í ljós kemur samkvæmt viðamikilli grein fréttamiðilsins International Business Times að stjórnendur Thrifty/Dollar hafa um árabil nánast gert kröfu á starfsfólk sitt að svína eins og mögulegt er á viðskiptavinum. Helst þá með því að pranga inn á þá tryggingum og aukadóti sem fæstir hafa nokkuð að gera með.

Svo rammt kveður að þessari stefnu að launatekjur starfsfólks hanga saman við hversu vel þeim tekst að hafa aukatekjur af viðskiptavinum. Engin laun eða lágmarkslaun eru greidd fyrir það eitt að leigja út bíl. Launin tikka inn takist staffinu að bæta við aukaþjónustu sem auðvitað er vel smurt ofan á.

Fjöldi kvartana á hendur Dollar/Thrifty á landsvísu í Bandaríkjunum er orðinn slíkur að nokkur fylki hafa nú hafið rannsókn á gjörningunum. Ljóst þykir lögfróðum mönnum að annaðhvort gangi bílaleigurnar fyrir svindli og svínaríi ellegar hver einasti viðskiptavinur þeirra er að ljúga. Hið síðarnefnda vægast sagt ólíklegt.

Bæði Thrifty og Hertz leigja út bifreiðar hérlendis en ritstjórn Fararheill vitandi hefur ekki vitnast „þjónusta“ á borð við það sem nú ert til rannsóknar hjá yfirvöldum vestanhafs.

En allavega full ástæða til að færa viðskiptin annað en til Dollar/Thrifty ef leigja skal bíl í Bandaríkjunum.

Nánar um þetta hér.