Ármann Guðmundsson hélt hann hefði himinn höndum tekið þegar hann leigði Cherokee á príma verði fyrir fjölskylduferð um Almeríu á Spáni fyrir nokkru. Svo runnu á hann grímur…

Prófaðu að leggja jeppa í hefðbundinni götu í Lissabon og þú munt að öllum líkindum blokkera léttlestir borgarinnar. Eða færð mjög fínar rispur eftir endilöngum bílnum.

Fengum skeyti frá Ármanni fyrir stuttu. Þar vill hann endilega benda landanum á að sé hugmyndin að leigja bílaleigubíl og dvelja að hluta eða öllu leyti í evrópskri borg eða þéttbýli sé vænlegt að hafa bíltíkina eins litla og mögulega verður komist upp með.

Hæstánægður með flottan bílinn og leigukostnaður lágur og ótakmarkaður kílómetrafjöldi innifalinn. Hugmyndin var að aka í rólegheitum frá Malaga til Almeríu og gista reglulega í notalegum bæjum og borgum. Það plan varð næstum að martröð því ég fann aldrei nokkurn tímann laus stæði fyrir svo stóran bíl. Ekki á götum í smábæjum, ekki á götum í borgunum og jafnvel bílastæðahús þeirra hótela sem við gistum á voru of þröng fyrir þess lags bifreið. Leit að stað þar sem hægt var að leggja sæmilegum jeppa kostaði okkur fleiri klukkustundir af ferðinni. Bendi fólki eindregið á að leigja eins litla bíla og það getur þegar ferðast er um vinsæla staði í Evrópu.

Ábending Ármanns góðra gjalda verð. Það er jú vissulega töff að leigja „alvöru” vagn á erlendri grundu. Þannig fer vel um alla og víða erlendis kosta jeppar eða jepplingar ekki svo mikið meira en hefðbundnir fólksbílar. Þá eru stórir bílar líka þekktir vestanhafs til dæmis og oftast ekki vesen að leggja þar.

Öðru máli gegnir víða í Evrópu. Reyndu að leggja jeppa í hefðbundinn bílakjallara á Spáni eða Ítalíu og ef þú ert svo heppin/-n að finna laust pláss þá tekur jeppinn yfirleitt meira en eitt bílastæðapláss.

Verst kannski að ef þú ert í borg og ekki með aðgang að bílastæði eða kjallara getur leit að hentugu stæði tekið heilu og hálfu árþúsundin. Ekki alveg mest spennandi hluturinn á fjölskylduferðalagi…