Flest vitum við af Lególandi í Billund og allmargir Íslendingar vita af Disneylandi í París. Þá hafa margir prófað skemmtigarðinn Port Aventura í Salou á Spáni og vart færri þekkja Terra Mítica nálægt Benídorm.

Terra Mítica á Spáni er velþekktur en betri skemmtigarðar í Evrópu skipta tugum
Terra Mítica á Spáni er velþekktur en betri skemmtigarðar í Evrópu skipta tugum

Allir eru þessir skemmtigarðar góðir til brúksins og smáfólkið gleymir sér auðveldlega á öllum þessum stöðum. En það eru talsvert fleiri frábærir skemmtigarðar í henni Evrópu sem Frónbúar heyra lítið um.

* Allar upphæðir í krónum miðað við miðgengi í janúar 2019.

♥  Europa Park – Risastór skemmtigarður í Baaden-Wurttemberg í Þýskalandi. Vel staðsettur í dreifbýli og í grennd við landamæri Frakklands, Sviss og borgunum Freiburg, Stuttgart og Karlsruhe í Þýskalandi. Litlar 54 mismunandi renni- og vatnsbrautir að velja um og margar þeirra ekki fyrir hjartveika. Aðgangseyrir 6.200 krónur fyrir fullorðna en 5.600 fyrir smáfólkið. Heimasíðan.

♥  Planete Futuroscope – Risastór skemmtigarður sem leiðir gesti inn í framtíðina með merkilegum hætti. Stendur á 53 hektara svæði og því auðvelt að eyða degi hér og ná ekki einu sinni að fara um allan garðinn. Margs konar leiktæki sem með aðstoð fullkomnustu tækni þeyta gestum jafnt um himingeima og niður á dýpsta botn heimshafanna. Í um fimm tíma fjarlægð frá París nálægt bænum Poitiers. Aðgangseyrir 8.100 fyrir fullorðna en 6.800 fyrir smáfólkið. Heimasíðan.

♥  Mini Europe – Þennan þekkja margir sem heimsótt hafa Brussel enda við Atomium listaverkið fræga. Minnir óneitanlega á Lególand enda eru hér til sýnis yfir 800 eftirlíkingar af frægum byggingum og listaverkum öðrum frá Evrópu. Afar nákvæmar en eðli málsins samkvæmt aðeins brot af eðlilegum stærðum. Aðgangseyrir 2.400 krónur fyrir fullorðna en 1.800 fyrir smáfólk yngra en 10 ára. Heimasíðan.

♥  Phantasiland – Einn vinsælasti skemmtigarður Þýskalands en hér eru hvers kyns fantasíur í forgrunni. Hér ægir og grúir ýmsum tækjum saman á stóru svæði og mörg tækjanna ansi hrein svæsin að sjá. Þá er hér feit dagskrá frameftir kvöldum þegar lista- og töframenn stíga á stokk. Garðurinn staðsettur við bæinn Bruhl skammt frá Köln. Aðgangseyrir að garðinum 6.300 fyrir alla sem eru hærri en 1.45 en 4.500 fyrir minna fólk en það. Heimasíðan.

♥  Efteling – Þessi skemmtigarður í Tilburg í Hollandi er sérstakur að því leyti að hann er tvískiptur. Annars vegar er skemmtigarður fyrir yngstu kynslóðina með áherslu á álfa og annað ævintýrafólk. Hinn hluti garðsins er fyrsta flokks 18. holu golfvöllur. Þarna geta því mamma og pabbi skellt sér í golf á meðan smáfólkið gleymir sér í ævintýrum ef svo ber undir. Þá er hér einnig leikhús og stórt hótel. Aðgangur 5.200 fyrir fjögurra ára og eldri. Heimasíðan.

♥  Terra Mítica – Þennan þekkja margir enda skammt frá Benídorm á Spáni en þema garðsins eru horfnir tímar Rómverja, Grikkja og Egypta. Skemmtilegur og veitir mörgu smáfólkinu innsýn inn í þessa heima og því má fræðast um söguna í leiðinni. Það er þó erfitt að einbeita sér að sögunni enda fjölmörg leiktæki hér sem heilla smáfólk á öllum aldri. Dagspassi fyrir fullorðna á 6.300 krónur en 5.200 fyrir yngri en tólf ára. Heimasíðan.

♥  Parque Warner – Jógi Björn, ScoobyDoo, Steinaldarfólkið og Mel Gibson er alla að finna hér og fleiri til úr safni Warner kvikmyndafélagsins. Skemmtilegur garður en helst til erfitt að komast þangað nema fólk sé með bílaleigubíl enda í um klukkustundar fjarlægð frá Madríd á Spáni. Ekki billegt því fullorðinsmiðinn kostar 6.000 krónur meðan þeir sem eru minni í loftinu greiða 4.900 krónur. Aðeins ódýrara ef miðar eru keyptir á netinu. Heimasíðan.

♥  Disneyland – Enn stærsti skemmtigarðurinn í Evrópu en margir þekkja slíka garða frá Kaliforníu og Flórída í Bandaríkjunum. Þessi er staðsettur í úthverfi Parísar og hér bregður fyrir hefðbundnum góðkunningjum úr heimi Disney auk þess sem fjöldi tækja kemur brosi á flesta sem prófa. Barnmargar fjölskyldur ættu þó kannski að leita annað því miðaverð er 9.900 fyrir alla eldri en þriggja ára. Heimasíðan.


View Helstu skemmtigarðar Evrópu in a larger map

Leave a Reply