Velflestir sem til höfuðborgar Írlands koma þessi dægrin kunna vel að meta hversu ódýrt er almennt að versla í verslunum borgarinnar og það jafnvel þó íslenska krónan sé í lægð. En hyggi fólk á sérstaka verslunarferð til Dublin er hið besta ráð að halda burt frá borginni.

Verslunarsvæði Blanchardstown samanstendur af hvorki fleiri né færri en FJÓRUM verslunarmiðstöðvum.

Eins og gerist með höfuðborgir allra landa heims er verðlag í þeim það hæsta sem finnst í hverju landi fyrir sig. Ísland auðvitað undantekningin sem sannar regluna því töluvert meira er lagt á vörur á Húsavík og Vopnafirði en í Reykjavík svona heilt yfir.

Almennt eru þó höfuðborgirnar dýrastar og það gildir um verslun eins og leigu eða kaup og helgast af því að það er í höfuðborgunum sem ríkasta fólkið hreiðrar um sig og laun oftar en ekki hærri en annars staðar.

Það gildir líka um Dublin og Írland en ólíkt því sem yfirleitt gerist er tiltölulega einfalt að komast í ódýrustu verslanir landsins þótt gist sé í höfuðborginni. Það er nefninlega svo að lítill bær í grennd við Dublin hefur tekið algjörum stakkaskiptum á 20 árum og er nú mekka verslunar og afsláttarverslana í landinu öllu. Bærinn sá heitir Blanchardstown.

Fræðilega tilheyrir Blanchardstown héraðinu Fingal en ekki Dublin en Dublin hefur vaxið svo hratt undanfarin ár að segja má að Blanchardstown sé úthverfi höfuðborgarinnar í dag. Úr miðbæ Dublin tekur aðeins 20 mínútur að fara á milli með bíl og litlu lengur með strætisvögnum 37 eða 39.

Verslunarhverfi Blanchardstown er hið stærsta á Írlandi öllu og sérstaklega skipulagt með stórverslanir í huga. Hér finnast á litlum bletti einar fimm verslunarmiðstöðvar og þar á meðal ein sem tileinkuð er outlet-verslunum. Þar selja þekkt fyrirtæki á borð við Nike eldri vörur á duglegum afslætti. Hér líka finnast auðvitað allar helstu skyndibitakeðjur Bandaríkjanna og einnig er hér stærsta golfverslun Írlands sem er gott að vita fyrir þá fjölmörgu sem hingað koma til golfiðkunar. Verð í þeirri ágætu verslun heilt yfir helmingi lægra en það gerist í golfverslunum íslenskum.