Það var aðeins tímaspursmál áður en þau viðbjóðslegu glæpagengi sem herja á almenning í velflestum héruðum og borgum Mexíkó sæju tækifæri á langvinsælasta ferðamannastað landsins. Flest bendir til að hið fræga svæði Cancún á austurströnd landsins sé nú á sömu niðurleið og Acapulco á vesturströndinni.

Lítið varið í strandlíf með lögreglumenn um allar trissur. Skjáskot

Það fer afskaplega lítið fyrir fregnum af aftökum og slíkum hryllingi frá ferðamannastöðum Mexíkó í vestrænum fjölmiðlum en hin ýmsu glæpagengi starfa víða í landinu og gera líf almennings að hreinu helvíti.

Stjórnvöld í Mexíkó hafa reyndar lagt sig extra fram um árabil til að ferðafólk geti notið vinsælla áfangastaða áhyggjulaust enda nema tekjur af þeirri grein hátt í 12 prósent vergrar þjóðarframleiðslu og skapar atvinnu fyrir tæplega fjórar milljónir í landinu. Það stór biti hjá tiltölulega fátækri þjóð.

Ýmislegt bendir reyndar til þess að stjórnvöld á mörgum þekktum áfangastöðum ferðafólks falsi eða hagræði tölum um glæpi eða beinlínis birti ekki þá tölfræði til að vekja ekki ugg í brjóstum þeirra sem hafa hugsað sér að heimsækja landið. Það tekst ekki alltaf hins vegar og fyrir skömmu settu bandarísk stjórnvöld héraðið Quintana Roo í fyrsta skipti á viðvörunarlista sinn til ferðalanga. Víðfrægir staðir á borð við Cancún og Tulum finnast í því héraði.

Ekki þarf lengi að leita í mexíkóskum fjölmiðlum að ástæðu þessa. Það sem af er þessu ári hafa 111 morð verið framin í Cancún og þar á meðal nokkur á þeim glæsilegu ströndum sem borgin státar af. Í flestum tilfellum hreinar aftökur á götum úti.  Það er ógnvænlegur fjöldi á ellefu mánuðum eða svo og hér aðeins um borgina og strandsvæðið að ræða. Vel yfir 300 morð eru skráð á árinu í héraðinu öllu.

Þó glæpagengin hafi hingað til ekki beint sjónum sínum að ferðamönnum heldur fyrst og fremst þeim er þjónusta ferðafólk per se má ljóst vera að líkurnar eru töluverðar fyrir útlendinga að vera á röngum stað á röngum tíma. Hver veit svo hvenær gengin snúa sér beint að ferðamönnum á svæðinu fyrir utan þá staðreynd að lítið er varið í að dvelja í borg þar sem hermenn, lögreglumenn og sjálfskipaðir gæsluhópar sjást á hverju götuhorni. Ljóst má þó vera að glæpamennirnir eru komnir til að vera eins og annars staðar þar sem peninga er að fá.