Fleiri en ritstjórn Fararheill hafa undrast takmarkað úrval staða í Evrópu sem hægt er að ferðast til beint með hraðlest frá London. En það horfir mjög til betri vegar næstu árin.

Mjög hægt og bítandi fjölgar áfangstöðum með lestum frá London. Mynd NextGen
Mjög hægt og bítandi fjölgar áfangstöðum með lestum frá London. Mynd NextGen

Tuttugu ár eru síðan Eurostar hraðlestirnar hófu að aka fólki gegnum Ermasundsgöngin milli London og Parísar og þótti ekki lítið afrek á sínum tíma. Ekki vantaði yfirlýsingarnar á þeim tíma: öll Evrópa væri nú innan seilingar frá London með sífellt hraðskreiðari lestum. Svo mjög átti þetta að ganga hratt að Eurostar yrði skæður keppinautur flugfélaga. Sennilega útlendur ættingi Kristjáns Möllers lýst þessu yfir því tveimur áratugum síðar hefur nánast ekkert átt sér stað.

Enn þann dag í dag er aðalleið Eurostar lestanna milli London og Parísar og þó stöku lestir haldi áfram för suður á bóginn er kerfið ekki tengt neinni annarri borg sem mikilvæg getur talist án þess að farþegar þurfi að skipta um lest og jafnvel lestarstöð.

Það breyttist aðeins til betri vegar í vikunni þegar fyrsta Eurostar lestin renndi inn á stöð sem staðsett er við Miðjarðarhafið. Fyrsta skiptið sem lest fer beina leið milli London og alla leið þangað suðureftir. Borgin sem um ræðir er hin franska Marseille.

Góðar fréttir fyrir alla þá sem finnst ekki til betri ferðamáti en lestir en jafnvel þetta er bara minniháttar sigur. Það er aðeins ein ferð á dag alla leið. Og þó Marseille sé um margt áhugaverð er hún ekki á topp hundrað yfir vinsæla áfangastaði ferðafólks.

Í viðtali við BBC segir forstjóri Eurostar að allt horfi þó til betri vegar á næstu þremur til fjórum árum. Stefnt er að því að Amsterdam komist í kerfið innan tveggja ára og vonir standa til að fleiri stórborgir verði í boði fljótlega eftir það.

Vandamálið? Í ljós kemur að lestarkerfi landa Evrópu eru afar frábrugðin sem þýðir að hraðlestirnar þurfa að ráða við breytt kerfi í hvert sinn sem farið er yfir landamæri. Og þær lestir sem Eurostar hefur verið að nota eru einfaldlega ekki með nógu öflugar tölvur og stýrikerfi til að skipta á milli.

„Hins vegar er Barcelóna á vitlausum stað og mun ekki tengjast Eurostar kerfinu neitt á næstunni,“ lét karl eftir sér hafa. Það er því borin von að komast beint til Spánar með lest frá London alveg á næstu árum.