Hér er ábending dagsins og líklega þvert á það sem ýmsir halda. Í Rússlandi lætur enginn heilvita innlendingur sjá sig með vodka á bar eða diskóteki. Það gera aðeins fyllibyttur og útlendingar.

Nokkrar tegundir af rússnesku vodka en fjöldi tegunda þar í landi er hreint rugl og engin leið fyrir fólk að vita hvað er gott og hvað ekki nema á nokkrum árum á haugafilleríi. Mynd AE
Nokkrar tegundir af rússnesku vodka en fjöldi tegunda þar í landi er hreint rugl og engin leið fyrir fólk að vita hvað er gott og hvað ekki nema á nokkrum árum á haugafilleríi. Mynd AE

Það er reyndar nokkur einföldun að segja enginn en raunin er sú í landi Pútíns þykir ekki móðins að súpa vodka lon og don. Allavega ekki opinberlega.

Þó þetta hafi aðeins breyst allra síðustu árin og þá sérstaklega í Moskvu og Pétursborg þá finnst enginn með vodkaglas eða vodkaflösku á borði þegar komið er út á land. Þar um slóðir líta flestir á vodka sem drykk annaðhvort með mat ellegar til að skola niður ljúffengum kvöldverði í góðra vina hópi.

Við nefnum þetta sökum þess að í stærri borgum Rússlands hafa sprottið upp svokallaðir vodkabarir eins og gorkúlur en það sem aðkomufólk gerir sér ekki grein fyrir er að þeir barir miðast nánast eingöngu við ferðafólk. Margir þeirra stórglæsilegir og verð á drykkjum eftir því.

En heimamenn í smábæ skammt frá Pétursborg hlógu og glottu að íslensku ferðalöngunum þegar pantað var innlent og dýrt vodka á línuna. Svo fengu þeir ókeypis lexíu í kjölfarið sem skildist merkilega vel þrátt fyrir tungumálaörðugleika. Þar heyrðum við þetta með útlendingana og bytturnar og fengið staðfest víðar í kjölfarið. Í öllu falli ætti ekki að drekka vodka á tóman maga en það er ráð sem flestir kynnast fljótlega um ævina.

Að þessu sögðu eru vodkategundirnar í Rússlandi fleiri en kindur á Íslandi og sjálfsagt að prófa fyrir þá sem drekka á annað borð. Það væri til dæmis í frásögur færandi eftir heimkomu að segja frá því að hafa drukkið vodka sem er eimað gegnum skíragull. Það fæst hér og verðið eitt og sér nægir til að fá hausverk. Annað vinsælt montvodka í stórborgum Rússlands er Stolichnaya Elit en það er bara almúginn sem sullar í svoleiðis. Hinir moldríku, og nóg virðist af þeim alls staðar, láta sig ekki muna um að panta Stolichnaya Elit Himalayan. Sem er venjulegt Stoli vodka en vatnið kemur úr úr lindum Himalaya.

Fyrir okkur á íslenskum meðallaunum er hægt að gera vel við sig í vodka án þess að greiða handlegg og fótlegg með kaupum á Russky Standart eða Imperia. Báðar tegundir renna ljúflegar niður en harðasta vodka í Rússlandi sem bítur oft í fleiri mínútur eftir einn sopa.