Þó elsta kynslóðin þurfi líklega að klóra sér lengi í haus og jafnvel þá vita ekkert um manninn, verður hið sama ekki sagt um yngra fólk. Velflestir með augun opin síðastliðinn áratug kannast við listamanninn Banksy.

Líklega magnaðasta verk Banksy í Bristol er verkið Well Hung Lover sem finnst í Frogmore stræti. Mynd Twobbly
Líklega magnaðasta verk Banksy í Bristol er verkið Well Hung Lover sem finnst í Frogmore stræti. Mynd Twobbly

Banksy er listamannsnafn ókunnugs götulistamanns sem getið hefur sér svo góðs orðs gegnum tíðina að nafn hans er þekkt um víða veröld. Ekki aðeins þykja verk hans afar móðins og vel gerð heldur ekki síður er ávallt að finna einhverja þjóðfélagsádeilu í öllum hans verkum. Þá er ótalið það sem margir telja hans flottasta verk: enginn veit hver Banksy er. Hann eða hún hefur aldrei komið fram opinberlega og oftast nær vinnur viðkomandi í skjóli nætur við verk sín.

Eitt er þó talið óumdeilanlegt við Banksy og það að viðkomandi kemur næstum pottþétt frá bresku borginni Bristol eða nágrenni hennar. Sú ályktun dregin af því að hans allra fyrstu verk finnast enn þann dag í borginni þó mörg þeirra hafi reyndar verið máð af veggjum og skúrum gegnum tíðina eða áður en nafnið náði frægð um heim allan. Þykir renna stoðum undir það sú staðreynd að árið 2009 fékk Banksy, gegn loforði um leynd, að setja upp sýningu eina mikla í borgarlistasafni Bristol. Það er vinsælasta sýning sem það safn hefur nokkru sinni sett upp.

Ein sjö verk Banksy finnast enn á veggjum í Bristol og nágrenni og hvort sem gestir hafa raunverulegan áhuga á list hans ellegar langar í góðan göngutúr er óvitlaust að búa til gönguleið um þær götur þar sem verk listamannsins finnast ennþá. Þá staði má sjá á meðfylgjandi korti.

Njótið 🙂