Vandamálið vel þekkt í flestum löndum Suðaustur-Asíu og illa gengur að uppræta. Lögreglu- og embættismenn kúga ítrekað fé af ferðafólki og geta haft töluvert upp úr krafsinu. Þar er Balí engin undantekning.

Lögregla á Balí á það til að sekta ferðafólk fyrir hluti sem heimamenn komast upp með óáreittir. Mynd Bali Manual
Lögregla á Balí á það til að sekta ferðafólk fyrir hluti sem heimamenn komast upp með óáreittir. Mynd Bali Manual

Víðast hvar í þessum hluta Asíu eru launatekjur fólks af skornum skammti svo ekki sé kveðið fastar að orði. Það á ekki síst við um lögreglu, tollverði og slíka aðila sem geta haft sitt um að segja hvort erlent ferðafólk nýtur sín eður ei.

Víða sitja menn um ferðafólk í þeirri von að hafa megi fjármuni upp úr krafsinu. Mjög algengt er að stoppa fólk fyrir smávægileg brot eða jafnvel upplogin brot og krefjast greiðslu á staðnum nema fólk vilji í steininn og fyrir dómara daginn eftir. Þeir verstu sætta sig heldur ekki við ef vasar eru tómir. Þá er fólki gjarnan fylgt á hótel sitt til að ná í fjármuni eða því fylgt í næsta hraðbanka þar sem væn fúlga er tekin út.

Velflestir sem fyrir verða láta sig hafa að greiða kúgara sínum. Fimm, tíu eða tuttugu þúsund kall er jú enginn hellingur en í flestum tilvikum er ekki um hærri upphæðir að ræða. Þá vill enginn eyða nóttum í fangageymslu á Balí eða annars staðar í Suðaustur-Asíu. Vistin þar töluvert verri en í fangelsum sem við þekkjum á vesturlöndum fyrir utan að slík vist mun setja ferðalagið allt í uppnám.

Seint eða aldrei verður hægt að verja sig hundrað prósent gegn slíku en þjóðráð er að hafa aldrei meiri fjármuni á sér en þetta tíu til tuttugu þúsund krónur eða svo. Geyma kortin heima nema sérstaklega sé verið að fara að versla. Vona svo að embættismaðurinn láti gott heita.