Neðangreint tilboð er líklega lítt spennandi fyrir hjátrúarfulla einstaklinga en fyrir okkur hin er þetta draumur í dós. Það er að segja ef hin ljúfa og seiðandi eyja Balí hefur einhver tímann verið á óskalistanum.

Fjórir yndislegir staðir heimsóttir á annars yndislegri eyju. Mynd Kasfi Harfaord
Fjórir yndislegir staðir heimsóttir á annars yndislegri eyju. Mynd Kasfi Harfaord

Það er ósköp skiljanlegt að sumir veigri sér við ferðum um Asíu þessi dægrin með tilliti til að þrjú mestu flugslys ársins 2014 áttu sér stað hér um slóðir.

Engu að síður þykir okkur full ástæða til að benda áhugasömum á þrettán daga súperferð til Balí sem er boði er nú á kostakjörum frá Bretlandi. Þar er þvælst um alla þessa yndislegu eyju, gist á fjórum mismunandi stöðum á fjórum fínum hótelum og fjöldi skoðunarferða innifalið í verði. Nánast allt merkilegt undir sólinni hér skoðað og þess utan góður tími til sólbaða og ljúflegheita.

Sem sagt okkur mjög að skapi og efalítið einhverjum þarna úti líka. Ekki síst þegar verðið er haft í huga en það fer lægst í mars niður í 230 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman en fæst aðra mánuði kringum 265 þúsund. Ferðirnar í boði bæði frá London og Manchester og þangað komist beint héðan með Icelandair, easyJet og Wow Air allt niður í 25 til 30 þúsund á haus. Ergo; Tveggja vikna ljúfur Balí rúnturinn kostar með þeim hætti par eða hjón alls 260 þúsund frá Íslandi sé miðað við lægsta mögulega verð.

Það er bara frábært verð fyrir frábæra ferð ef þú spyrð okkur. Nánar hér.