Ritstjórn Fararheill er spurn hvort það séu sérstök tilmæli nýrrar stjórnar Icelandair að hafa viðskiptavini úti í kuldanum í einu og öllu. Taka þannig Wow Air sér til fyrirmyndar. Eða kannski er það hrein tilviljun að flugfélagið lætur engan vita af aflýsingu flugs.

Ókei, seinkun til tveggja áfangastaða ekki svo alvarlegt…

Á vef Icelandair þetta kvöldið, 23. júní 2017, má sjá aðvaranir þess efnis að flug Icelandair frá Seattle í Bandaríkjunum og flug til og frá Billund á morgun, 24. júní, seinki allverulega vegna „tæknilegra örðugleika“ eins og markaðsmenn kalla það.

Gott og blessað. Slíkt getur gerst í fluginu fyrirvaralaust enda ekkert flugfélag með vélar sínar í kyrrstöðu neins staðar án þess að blæða peningum. Flugfélaginu fyrirgefst að sinni og ekki síst vegna þess að lendi farþegar þremur stundum eða lengur á EFTIR ÁÆTLUN þá detta sjálfkrafa inn bætur leiti fólk eftir.

En þó Jesú litli hafi prédikað fyrirgefningu í einu og öllu, og til eftirbreytni, reynist það erfitt þegar fyrirtæki beinlínis FELA leiðindi fyrir viðskiptavinum. Til dæmis þeim leiðindum að flugi Icelandair frá Frankfurt sem lenda átti laust eftir miðnætti þetta kvöldið er AFLÝST!!!

En hvers vegna er flugið frá Frankfurt fellt niður? Enginn veit. Það er leyndó.

Fyrirtækið telur sem sagt að eðlilegt sé að láta viðskiptavini vita af löngu töfum. En sé flugi aflýst er best að grafa það sem dýpst.

Var fluginu frá Frankfurt aflýst vegna „tæknilegra örðugleika“ eða einhvers annars? Ef tæknilegir örðugleikar spila líka rullu frá Frankfurt er óhætt að spyrja hvort vélar Icelandair séu að hrynja í sundur úr aldri. Eðlileg spurning nú þegar meðalaldur véla flugfélagsins er 21,4 ár og þeim flogið sundur og saman hvern einasta dag.

Er til of mikils mælst að koma heilt fram við fólk? Allt annað er aumingjaskapur.