Þeir auglýsa sig sem fimm-stjörnu-flugfélag þaðan sem enginn fer frá borði nema sáttur og saddur og með bros út að eyrum. Verst hvað starfsfólk þeirra þarf að sitja undir til að slíkt sé mögulegt.

Flugþjónar Qatar þurfa að búa við æði strangar reglur
Flugþjónar Qatar þurfa að búa við æði strangar reglur

Ritstjórn Fararheill hefur fimm sinnum flogið með Qatar Airways sem oft er talað um hin seinni ár sem besta flugfélag heims ásamt Emirates.

Það er vissulega erfitt að mæla því mót. Ekki aðeins eru vélar flugfélagsins glænýjar, sæti hvarvetna í vélum þeirra eins og fínasti Lazy-boy, heit og rök handklæði á boðstólnum reglulega, hægt er að velja af matseðli mismunandi fína rétti og vín með og þjónusta flugþjóna óaðfinnanleg.

Það er ekki að sjá á starfsfólki að leiðindi séu bak við tjöldin eins og nú er orðið opinbert. Svo mikil leiðindi reyndar að helstu fjölmiðlar heims sjá ástæðu til að fjalla um.

Málið snertir afar harðar reglur flugfélagsins gagnvart starfsfólki sínu. Reglur sem voru í raun trúnaðarmál þangað til nýlega þegar Alþjóðavinnumálastofnunin fékk afrit af ráðningarsamningi eins óánægðs starfsmanns.

Í ljós kemur að fólk í starfi má næstum ekkert. Stúlkur mega ekki gifta sig nema fá til þess leyfi frá flugfélaginu, þær mega heldur ekki verða ófrískar því það samsvarar brottrekstri launalaust. Þá er fylgst með starfsfólki ofan í kjölinn og jafnvel settar upp eftirlitsvélar í þeim hótelherbergjum sem starfsfólk gistir í milli ferða. Og þar frameftir götunum.

Stjórnarformaðurinn, einn þeirra vellauðugu olíufursta sem landið eiga, telur allt eftirlitið og harðar reglur ástæðu þess að flugfélagið fær svo góða dóma sem raun ber vitni og skammast sín ekkert fyrir að vita allt um alla innan fyrirtækis síns.

Góð ástæða til að brosa vingjarnlega að starfsfólkinu næst þegar leiðin liggur eitthvað út í heim með Qatar Airways. Eða sleppa því að fljúga með þeim 🙂

Leave a Reply