Að okkar mati er hin hollenska Amsterdam ein af allra skemmtilegustu perlum Evrópu og er jafn skemmtileg og Barcelóna þegar best lætur. En nú ætla borgaryfirvöld að fara að heimta alvarlega seðla af ferðafólki.

Með ríkis- og borgarsköttum mun ferðafólk til Amsterdam greiða rúmar 1600 krónur hvern dag frá árinu 2019.

Það hafa engar kröfugöngur gegn ferðamönnum farið fram í Amsterdam svo við vitum af en þar með er ekki sagt að íbúar séu ekki pínu þreyttir á túristanum. Amsterdam hefur jú verið vinsæl um áraraðir og ekki þarf langt spjall við heimamann til að vita að þeir vilja gjarnan sjá færri ferðamenn en almennt heimsækja borgina.

Hollensk stjórnvöld taka nú þegar aukagjald af þeim er heimsækja landið og frá 2019 ætla borgaryfirvöld í Amsterdam að bæta sínum eigin gjöldum á þá sem hér gista. Gjaldið ekkert djók eins og íslensk stjórnvöld hugsuðu sér með 150 kall á dag. Neibb, Hollendingarnir ætla að taka allt að 1.300 krónur af hverjum ferðamanni HVERN EINASTA DAG.

Það kann að hljóma grimmt fyrir Íslendinga sem leyfa túristanum að valsa um flesta staði án þess að heimta aur, en er þó í takti við aðrar borgir Evrópu sem tekið hafa upp sérstakt túristagjald. Það er til dæmis þúsund kall íslenskar á dag í Lissabon. Fyrir vikudvöl í Róm borgar fjölskylda vel yfir 20 þúsund krónur bara til borgaryfirvalda vegna túristaskatts.

En á ófarsæla Fróni hefur Reykjavíkurborg ekki dottið í hug að skattleggja túrista sérstaklega. Gengur þó hörmulega að borga mikilvægu starfsfólki á borð við leikskólakennara sómasamleg laun svo aðeins eitt dæmi sé nefnt.