Leigubílaþjónustan Uber hefur hingað til vaxið hratt og örugglega í flestum vestrænum borgum heims þó fyrirtækið hafi vissulega ítrekað komist í kast við lögin. En nú syrtir heldur alvarlega í álinn.

Uber no more. Fyrirtækið þarf kannski að gjörbreyta viðskiptahugmyndinni í vetur. Mynd Joakim Formo
Uber no more. Fyrirtækið þarf kannski að gjörbreyta viðskiptahugmyndinni í vetur. Mynd Joakim Formo

Dómstóll vestur í Kaliforníu hefur gefið grænt ljós á hópmálsókn tæplega 160 þúsund bílstjóra Uber til að fá úr því skorið hvort bílstjórarnir séu lögum samkvæmt verktakar eða launþegar. Niðurstaðan gæti gjörbreytt starfsemi Uber og í raun eyðilagt grundvöllinn fyrir starfseminni.

Samkvæmt Uber eru allir sem keyra fyrir þá eingöngu verktakar og fá aðeins greitt fyrir þann tíma sem þeir vinna og pikka upp farþega. Uber gefur sér þó rétt til að ákvarða um hluti á borð við þjórfé eins og bílstjórar þess væru launþegar. Þeim er óheimilt að taka þjórfé enda slíkt innifalið í gjaldinu fyrir bílinn. Gjald sem fer að fullu inn á reikninga Uber.

Þó hópmálsóknin snúist aðeins um þjórféð, sem getur numið talsverðum upphæðum vestanhafs þar sem reglan er að tippa fyrir þjónustu, mun dómur sem fellur úrskurða um hvort bílstjórarnir séu verktakar eða launþegar. Verði niðurstaðan sú að þeir falli undir að löggjöf um launþega breytist Uber strax í hefðbundna leigubílaþjónustu.

Það aftur þýðir stóraukinn kostnað og ekki aðeins við laun heldur og ýmsa yfirbyggingu hjá Uber. Þá þarf fyrirtækið til dæmis að sækja um leigubílaleyfi í löndum heims sem það hefur ekki þurft hingað til. Sem þá hefur líka í för með sér að kostnaður viðskiptavina hækkar og væntanlega fer langleiðina í hefðbundinn leigubílaprís. Sem auðvitað hefur í för með sér að vinsældirnar dvína.

Dómur er væntanlegur einhvern tíma á árinu 2016.