Samkvæmt nýrri frétt á vef Viðskiptablaðsins er Arion banki nú eigandi ferðaskrifstofunnar Heimsferða. Það stemmir ekki alveg við upplýsingar á vef Heimsferða.

Er ferðaskrifstofan Heimsferðir íslenskt fyrirtæki eða erlent? Á því leikur feitur vafi

Svo segir í grein Viðskiptablaðsins frá því í dag 4. september:

„Arion banki tók yfir rekstur Heimsferða í júní á þessu ári með það að markmiði að tryggja áframhaldandi starfssemi félagsins. Bankinn tók á sama tíma einnig yfir rekstur Terra Nova Sól ehf., sem einnig varð fyrir tapi á árinu 2018 vegna gjaldþrots Primera Travel Group, sem var fyrrum móðurfélag þess. Söluferli hefur hafist á báðum félögum og eru viðræður við mögulega fjárfesta hafnar.”

Samkvæmt Viðskiptablaðinu á Arion banki ferðaskrifstofuna Heimsferðir og dótturfyrirtæki og er að leita mögulegra fjárfesta.

Ók.

Hmmm? Samkvæmt þessu á norræn ferðakeðja Heimsferðir og allt það klabb. Skjáskot

Víkur þá sögunni að neðanmálsgrein á auglýsingaskeyti sem við fengum síðdegis frá Heimsferðum. Þar kemur þetta fram í smáa letrinu sem lesa má hér til hliðar:

Heimsferðir ehf. – 2018. Hluti af TravelCo Nordic.

Hvað er TravelCo Nordic? Þetta.

Annaðhvort er Arion banki löngu búinn að selja þrotabú Heimsferða til danskra aðila og blaðamenn Viðskiptablaðsins ekki með á nótum. Eða að danskt fyrirtæki þykist vera að selja flug og ferðir fyrir hönd hins fallna fyrirtækis án þess að blikka auga.

Óskandi væri að við kæmumst til botns í málinu sjálf en því miður vill Heimsferðafólk lítið af okkur vita og engin eru svörin. Viðskiptablaðið gæti hins vegar fengið botn í málið. Það skiptir jú máli hver á þessa „íslensku” ferðaskrifstofu.