Almenningur, eða í öllu falli það fólk sem þátt tekur í skoðanakönnunum erlendis, virðist vera með meira vit í kolli en stjórnmálamenn og bisnesskallar vilja vera láta. Í ljós kemur að sífellt færri treysta einkunnamiðlum á borð við Tripadvisor þegar skipuleggja á ferð út í heim.

Fé leitt til slátrunar? Eða túristar að elta fararstjóra. Er einhver munur?

Húrra segjum við bara. Fólk loks farið að sjá gegnum blekkingar og viðbjóð sem margir þessara risamiðla nota og beita til að fá lesendur til að láta peninga sína af hendi. Og það hvergi auðveldara en gegnum netið.

Samkvæmt glænýrri breskri úttekt ráðgjafafyrirtækisins Speedie Consulting treysta aðeins SJÖ PRÓSENT Breta miðlum á borð við Tripadvisor þar sem milljónir einkunna ferðalanga eiga að gefa „rétta“ mynd af gististöðum og áfangastöðum um heim allan. Það er hreint hörmuleg prósenta hjá stærsta ferðamiðli heims og það þrátt fyrir að 87 prósent Breta brúki nú netið til að gera sín ferðakaup um heiminn.

Miðað við þetta virðist almenningur gera sér grein fyrir hversu auðvelt er að blekkja á netinu. Ekki aðeins með fölskum einkunnum á Tripadvisor heldur líka eilífum loforðum ferðamiðla sem ekki standast þegar á hólm er komið. Eða hver kannast ekki við að vefmiðill á borð við Booking.com lofi endurgreiðslu mismunar ef viðskiptavinir finna sams konar herbergi á sama hóteli á lægra verði annars staðar en hjá þeim eftir að búið er að bóka. Færri vita að endurgreiðsla tekur marga mánuði, er tímafrek því ítreka þarf málið aftur og aftur og senda staðfestingu og skjáskot og eyða svo miklum tíma að enginn nennir að böggast. Þá fæst endurgreiðsla mismunar AÐEINS ef herbergið sem um ræðir er SAMA herbergi og viðskiptavinurinn hefur þegar bókað. Með öðrum orðum: sé sams konar herbergi hæð ofar eða neðar á hótelinu en það sem bókað hefur verið með Booking.com endurgreiðir fyrirtækið ekki krónu ÞVÍ ÞAÐ ER EKKI SAMA HERBERGIÐ.

Þetta í ofanálag við að fyrirtæki á borð við gististaði og slíka aðila geta auðveldlega KEYPT sér góðar einkunnir gegnum þartilgerð fyrirtæki sem lofa allt í hástert gegn greiðslum. Enda hefur komið í ljós við rannsóknir á Tripadvisor sérstaklega að þar fellur meginhluti einkunna allra staða undir 9-5-1 regluna. Sú kenning er, eftir rannsóknir, að fyrir hverja níu einstaklinga sem lesa einkunnir um tiltekinn stað eða þjónustu og taka mark á eru aðeins fimm einstaklingar sem taka stund til að tjá sig eða gefa fésbókarlæk eða Googleplús eða tíst fyrir eða eftir kaup. Aðeins einn einstaklingur gerir sér far um að lýsa staðnum, hótelinu eða upplifunni svo úr verði eftirtektarverð grein. Ekki þarf að fara í grafgötur með hvaða einstaklingur af þessum níu hefur mest áhrif.

Það er bara svo og svo mikið hægt að fífla fólk og frábært að almenningur sé að opna augun. Meira að segja Bandaríkjamenn, sem margir hverjir láta hafa sig að fíflum sýknt og heilagt – Donald Trump einhver – hafa takmarkaða trú á einkunnum Tripadvisor. Samkvæmt ársgamalli könnun hinnar virtu Pew Research Center telja 51 prósent Bandaríkjamanna að fullt mark sé takandi á einkunnum á Tripadvisor meðan 49 prósent eru viss um að brögð séu í tafli.