Skipulagðar ferðir þar sem allt er innifalið hafa mjög átt upp á pallborðið síðustu árin. Það er auðvitað fátt þægilegra en að þurfa alls ekkert að hafa fyrir neinu á erlendri ströndu. Ekki einu sinni þörf að hafa veskið með í ferðinni. Eða hvað?

Upp úr dúrnum kemur að allt innifalið ferðir geta kostað meira en þessar venjulegu.
Upp úr dúrnum kemur að allt innifalið ferðir geta kostað meira en þessar venjulegu.

Svo undarlega sem það nú hljómar þá rekur breska póstþjónustan upplýsingavef um ferðir og ferðalög og þar eiga menn peninga til að láta fara fram kannanir á hinu og þessu ferðalögum tengt.

Nýjasta könnun þeirra leiðir í ljós það sem marga eflaust grunar: allt innifalið ferðirnar reynast mörgum dýrari en hefðbundnar ferðir þegar upp er staðið.

Það kann að hljóma hjákátlega en sjö af hverjum tíu fjölskyldum sem kaupa allt innifalið ferð eyða töluverðum fjármunum í mat og drykki utan hótelsins sem gist er á samkvæmt könnuninni. Ástæðan yfirleitt að úrval er jú takmarkað á hlaðborðum hótelanna og fólk fær oft leið á sama matnum aftur og aftur. Þá er líka oft á tíðum takmarkað hvað hægt er að drekka á þeim hótelum jafnvel þó annað sé auglýst.

Upphæðin í hvert sinn sem farið var út að borða samkvæmt könnuninni var ekki undir tólf þúsund krónum. Jafnvel þeir sem ekki borðuðu annars staðar létu sig samt hafa að greiða aukalega fyrir annan mat en var í boði á hlaðborðum. Upphæðin í það að meðaltali rúmar tíu þúsund krónur í hvert sinn.

Niðurstaðan sú að fólk sem kaupir „allt innifalið“ ferðir, endar á að borga meira fyrir mat og drykk en hinir sem aðeins bóka gistingu með morgunverði eða hálfu fæði og borða úti að öðru leyti.

Svo geta ferðaþyrstir líka ímyndað sér hversu „gaman“ er að heimsækja borg eða bæ erlendis þar sem allt-innifalið pakkar hótela hafa drepið þessa litlu kósí veitingastaði sem finnast um flestar trissur og gera ferðalög töluvert skemmtilegri en ella.