Ekki svo að skilja að Fararheill.is sé víðlesnasti vefmiðill landsins en við áttum einhvern veginn von á að stjórnendur Icelandair tækju nú til sín harða gagnrýni okkar síðustu daga og vikur vegna herfilegrar óstundvísi. Ekki alveg…

Enn einn daginn eru brottfarir véla Icelandair frá Keflavíkurflugvelli langt á eftir áætlun og nægir að líta á eitt skjáskot hér til hliðar til að sannreyna það.

Eitthvað eðlilegt við að hver einasta brottför Icelandair sé tíu til 50 mínútum á eftir áætlun? Það er raunin þennan daginn og raunar alla aðra daga ársins virðist vera því ekki tekst Icelandair að vinna bug á óstundvísinni.

Víst er það svo að í tilvikum geta vélar flugfélagsins náð á áfangastað á tilsettum tíma þó brottfarartími sé langt á eftir áætlun. Það helgast af því að áætlunarvélar eru almennt ekki keyrðar í botn svona heilt yfir. Séu tafir á brottför getur flugstjórinn sett þyngri fót á „bensíngjöfina“ og komist leiðar sinnar á tíma. Það þýðir þó auðvitað aukinn eldsneytiskostnað fyrir flugfélagið, hærri fargjöld fyrir viðskiptavininn svo ekki sé minnst á enn meiri mengun fyrir bláa hnöttinn okkar en annars væri.

Enginn hefur okkur vitandi gengið á flugfélagsstjórana og forvitnast um eilífar seinkanir en það er einfalt að geta í eyðurnar í þeim svörum. Þar auðvitað vandamálið hve Leifsstöð er orðin troðin og sprungin en ekki að Breitling-úr flugstjóra Icelandair gangi bara ekki rétt.

Víst er það svo að Leifsstöð er sprungin en það útskýrir ekki hvers vegna önnur flugfélög geta flogið af stað á réttum tíma. Né heldur er Leifsstöð eina flugstöð heims sem er hvellsprungin. Það er önnur hver flugstöðvarbygging heims og óvíða er það regla en ekki undantekning að flugfélag haldi aldrei áætlun.